Maki í dvöl á hjúkrunarheimili, ein að borga reikninga – Félagsráðgjafi svarar

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl!
Maki minn fór nýverið í varanlega dvöl í hjúkrunarrými á hjúkrunarheimili svo nú bý ég ein og veit ekki hvernig ég á að láta fjárhaginn ganga upp því nú er ég ein um að borga reikningana. Eru einhverjar bætur sem ég get sótt um ?
Kveðja


Sæl!
Þegar einstaklingur fer inn á hjúkrunarheimili falla niður lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun fyrsta dags mánaðar á eftir. Ef greiðslubyrði er umtalsverð er hægt að sækja um að viðkomandi haldi lífeyrisgreiðslum í 3 mánuði eftir að dvöl hefst. Mest er hægt að sækja um að greiðslur haldi sér í 6 mánuði frá því að dvöl hefst.
Þar sem þú býrð nú ein á heimili geturðu sótt um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun. Heimilisuppbót er tekjutengd en það er um að gera að athuga sinn rétt. Hægt er að sækja um bætur frá Tryggingastofnun allt að tvö ár aftur í tímann.
Ég hvet þig til að hafa samband við næsta útibú Tryggingastofnunar og sækja um ofangreinda þætti, einnig má sækja um á mínum síðum á www.tr.is ef þú ert með rafræn skilríki.
Gangi þér vel í þessum breyttu aðstæðum í lífinu.

Kærar kveðjur,
Sólrún

Tengdar greinar