Sæl!
Mig langar að athuga hvort þú hafir einhver ráð fyrir mig. Eftir að veiruskömmin fór að herja á heimsbyggðina hef ég lokað mig meira og meira af. Ég er ekkill, hættur að vinna og á uppkomin börn og barnabörn sem búa bæði erlendis og í öðru sveitarfélagi en ég. Ég hef ekkert hitt þau síðan í sumar svo þetta er orðið ansi einmanalegt. Ég er samt ekki tilbúinn til að fara mikið út á meðal fólks því ég kvíði því að smitast og er með undirliggjandi sjúkdóm ásamt því að vera kominn af léttasta skeiði. Mér bara hreinlega leiðist.
Kveðja X
Sæll
Takk fyrir að hafa samband. Það er svo sannarlega eðlilegt að finna fyrir einmanaleika og leiðast við þessar skrítnu aðstæður sem eru í dag og ekki síður þar sem þú hefur þína nánustu fjölskyldu ekki í nærumhverfinu. En góðu fréttirnar eru þær að það er margt hægt að gera til að bægja einmanaleikanum í burtu og bæta líðan þína. Ég legg til þessi ráð hér að neðan en ef þér finnst þau ekki hjálpa þér, hvet ég þig til að leita til þíns heimilislæknis og ræða málin þar.
- Hreyfing skiptir miklu máli þegar kemur að því að bæta líðan. Daglegur göngutúr getur gert kraftaverk. Það ætti að vera auðvelt að finna stað þar sem hægt er að taka göngu og jafnframt viðhalda tveggja metra reglunni við annað fólk. Þó það sé bara hringinn í kringum húsið sem þú býrð í þá er allt betra en ekki neitt. Það er svo ekki verra ef þú getur kastað kveðju á þann sem verður á vegi þínum, bara það að geta boðið einhverjum góðan daginn úr fjarlægð getur fengið þér til að líða eins og þú njótir félagsskapar.
- Samskipti. Eins og fram hefur komið í góðri grein eftir Guðnýju Stellu hér á síðunni að þá þarf líkamleg fjarlægð ekki að þýða félagslega fjarlægð. Nýttu þér tæknina til að vera í sambandi við fjölskylduna. Ef þú átt snjallsíma eða tölvu geturðu fengið fjölskylduna til að aðstoða þig við að eiga myndsamtöl við þau. Annars virkar gamla góða símtólið líka vel og það þarf ekki alltaf að hafa sérstaka ástæðu til að hringja og spjalla við annað fólk. Ef um allt þrýtur, þér líður illa og finnst erfitt að hringja í þína nánustu geturðu líka hringt í 1717 sem er hjálparsími Rauða krossins. Þar er hægt að fá spjall hvenær sem er sólarhringsins undir trúnaði. Rauði krossinn er líka með símavini sem hægt er að komast í tengingu við og fá regluleg símtöl.
- Rútína. Þó það sé freistandi að liggja mikið upp í rúmi eða sófa og horfa á sjónvarpið þegar maður er leiður er mjög mikilvægt að halda í rútínu. Fara á fætur á svipuðum tíma, borða máltíðir dagsins á svipuðum tíma og skipuleggja jafnvel fyrirfram deginum áður hvernig þú ætlar að hafa daginn í dag. Þó það séu hversdagslegir hlutir eins og að þvo þvott, hringja í börnin eða skúra gólfin er gott að skrifa niður hvað þú ætlar að gera dag hvern.
- Jákvætt sjálfstal. Það skiptir máli hvernig þú talar við sjálfan þig og þar sem þú segist vera mikið einn geri ég ráð fyrir að svigrúmið fyrir hugsanir og sjálfstal sé mikið, kannski of mikið. En þá skiptir máli hvernig þú talar við sjálfan þig, þú segir í bréfi þínu til mín “Mér hreinlega leiðist”, gætirðu frekar sagt við sjálfan þig “Mér finnst hreinlega gaman að vera til”? Ef þú segir það nógu oft ferðu kannski sjálfur að trúa því að það sé þannig. Einbeittu þér að því að hugsa jákvætt og lesa það sem er jákvætt, prófaðu að minna þig á kostina þína, settu gallana í skúffu og lokaðu.
- Skrifaðu niður það sem þér finnst skemmtilegt. Gerðu lista yfir allt það sem veitir þér ánægju, flokkaðu listann niður í þrjá flokka. A) “það sem ég get gert núna”, B) “það sem ég get gert eftir Covid” C) “það sem ég ætla að láta mig dreyma um að gera”. Byrjaðu svo á morgun á því að gera það sem þú getur gert núna og er skemmtilegt, láttu þér hlakka til og farðu að skipuleggja hvernig þú ætlar að vinna að hlutunum sem eru á hinum listunum.
Gott er svo að hafa hugfast að við erum að fara í gegnum tímabundið ástand og það er ljós við enda ganganna. Bólusetningar eru að hefjast innan fárra vikna og vonandi getum við farið að lifa eðlilegra lífi þegar kemur fram á vorið.
Gangi þér allt í haginn.