Starfslok eru stór tímamót í lífi flestra þegar við kveðjum vinnumarkaðinn fyrir fullt og allt og snúum athyglinni alfarið að okkur sjálfum, það er eigin heilsu, þörfum, lífsháttum og gildum. Það merkir ekki að lífinu sé lokið, svo langt því frá en það er margt sem hefur áhrif á hvernig við upplifum starfslokin og tímann sem við tekur sem farsælan. Á Íslandi eru starfslok í kringum sjötugsaldurinn, sumir kjósa að fara í hlutastarf við 65 ára aldur meðan aðrir keppast við að vinna fullt starf fram yfir sjötugt. Þar sem mannfólkið er svo ólíkt þá er ekki til nein ein aðferð um hvernig sé best að standa að starfslokum.
Undirbúningur fyrir starfslok
Það er þó mikilvægt að undirbúa starfslokin tímanlega því það er svo margt sem þarf að huga að þegar við hættum að fá launatekjur og byrjum að fá fastar lífeyrisgreiðslur. Í dag býðst að sækja starfslokanámskeið m.a. hjá stéttarfélögum og félagasamtökum víða um land sem hafa það markmið að hjálpa einstaklingum að undirbúa þessi tímamót með ýmsum hætti. Þátttaka á slíkum námskeiðum er ekki einungis góð fyrir einstaklinginn sjálfan heldur einnig samfélagið í heild því hér gildir viðhorfið „allir fyrir einn og einn fyrir alla“. Það eru samt margir sem átta sig ekki á tilgangi þess að undirbúa árin eftir starfslok þrátt fyrir að það tímabil einkennist af töluverðum óráðstöfuðum tíma, breyttum fjárhag, hlutverkum og venjum. Vinnan hefur mikil áhrif á hvernig við skipuleggjum líf okkar, ráðstöfum deginum, gefur okkur hlutverk, veitir okkur fjárhagslegt öryggi og skapar tækifæri til samveru og samskipta við aðra yfir daginn og vikuna. Þegar starfshlutverkinu lýkur lenda því miður sumir í því að ferðum utan heimilisins fækkar, kyrrsetan eykst og einverustundum fjölgar hægt og rólega.
Iðja og félagstengsl eru mikilvægir þættir heilbrigðis
Þegar við horfum á fræði iðjuþjálfunar þá horfa þau á einstaklinginn sem iðkanda og þörf hans til að geta stundað þær athafnir sem hann kýs. Iðju sem gefur lífinu hans gildi og hefur í sumum tilfellum lækningagildi fyrir líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði. Þegar líður að starfslokum er þarft að átta sig á hvaða iðja og félagstengsl eru líkleg til að hlúa áfram að þáttum heilbrigðis þegar ekki er þörf á að mæta til vinnu lengur.
Það einstaka við starfslokin er að þá tekur við tímabil þar sem okkur gefst betur tækifæri á að hlúa vel að okkur sjálfum, sinna meira af því sem við upplifum mikilvægt og gefur lífinu okkar gildi. Það er því ekkert óeðilegt að margir hugsi til áranna eftir starfslok með mikilli tilhlökkun, tíma þar sem á að gera allt það sem ekki gafst tími eða fjárhagur til að gera á yngri árum. Margir kjósa að skipuleggja ekki tímann of mikið fyrst til að byrja með þegar þau hætta að vinna enda oft sambærileg upplifun og að fara í gott sumar- eða vetrarfrí sem er öllum hollt og gott. Við þurfum að fá tækifæri til að slaka á og njóta þegar starfsævinni lýkur, bara ekki of lengi eða með þeim hætti að við missum út rútínu eða tökum á heilsunni.
Að setja sér markmið
Núna hefst tímabilið þar sem gott er og í raun mikilvægt að setja sér markmið, til lengri og skemmri tíma svo við náum að gera allt það sem okkur hefur dreymt um frá yngri árum. Það getur verið gott að byrja á því að setja sér markmið um það sem maður vill ná að koma í verk fyrsta árið eftir starfslok og horfa svo til þess sem maður myndi vilja ná að upplifa fyrstu fimm árin eftir starfslok. Það þarf svo að setjast reglulega yfir sett markmið til að meta hvort þau eigi enn við og ef ekki að breyta þeim í takt við breyttar áherslur og þarfir.
Það eru ekki allir eins
Við höfum sem betur fer mjög ólíkar þarfir, gildi, lífsstíl og heilsufar og því kjósum við að ráðstafa tíma okkar með mismunandi hætti alla ævi og stundum breytast aðstæður okkar sem ýtir undir þörf fyrir breytt markmið. Fjárhagur okkar, fjölskylduhagir og vinir hafa mikil áhrif á það sem við kjósum að taka okkur fyrir hendur á seinni hluta ævinnar sem og viljinn til að sinna áhugamálum. Viðhorf okkar til eigin heilsu og lífsins hefur einnig áhrif, hvort það sé jákvætt eða neikvætt og aðgengið til að sinna hreyfingu, tómstundaiðju og félagsstarfi í samfélaginu.
„Use it or lose it“
Það er því óhjákvæmilegt að eldast en viðhorf okkar, undirbúningur og umhverfið getur haft mikil áhrif á hversu sátt og ánægð við erum með það að eldast. Munum að aldur er bara tala og við þurfum ekkert að setjast í helgan stein þótt við hættum að vinna en höfum enska orðatiltækið „Use it or lose it“ eða „Notum það eða missum það“ í huga þegar það kemur að starfslokum til að hlúa vel að heilsu okkar og heilbrigði.