Velferðartækni til að einfalda hversdaginn

Það hefur marga kosti að búa á tækniöld sem tekur hröðum breytingum gegnum þróun og nýsköpun út frá þeirri sýn að einfalda verklag, auka hraða og aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, sérstaklega nú á tímum Covid. Það þarf ekki að horfa mjög mörg ár aftur í tímann þegar t.d. sjónvarpið hóf göngu sína hér á landi eða fyrstu farsímarnir voru teknir í notkun. Það er óhætt að segja að 19. öld var mikil tækniöld um allan heim. Þá birtust fyrstu bílarnir, þvottavélar, ísskápar, ljósaperur, postulínsklósett og tölvurnar svo eitthvað sé nefnt sem hefur haft mikil áhrif á lífsgæðin og nýtingu á tíma.

Hvað er velferðartækni?

Velferðartækni er hugtak sem er almennt notað fyrir þá tækni og tækjabúnað sem ýtir undir öryggi og velferð ásamt því að auka þátttöku, samskipti, sjálfsbjargargetu og frelsi einstaklinga til að sinna athöfnum og komast ferða sinna með því að einfalda iðju hversdagsins. Samkvæmt velferðarráðuneyti (2015) er velferðartækni skipt upp í fjögur meginsvið; það er öryggistækni sem skapar öryggi, tækni til að bæta fyrir missi og styðja við bætta líðan til að draga úr áhrifum minnisskerðingar eða skertrar hreyfigetu, tækni til félagslegra samskipta til að auka aðgengi að félagslegri þátttöku og tækni til þjálfunar og eigin umönnunar sem stuðlar að eftirliti og öryggi tengt heilsufari og athöfnum daglegs lífs.

Ryksugu- og skúringarróbotar

Líkt og hugtakið gefur til kynna að þá finnst velferðartæknin víða, bæði sem tækjabúnaður en líka sem tækni og forrit í tölvum og farsíma. Til að gefa einfalt dæmi má nefna ryksugu sem má finna á flestum heimilum. Síðustu ár hafa ryksugur þróast yfir í handryksugur, þráðlausar ryksugur og ryksuguróbota sem sinna sama hlutverki og upphaflega ryksugan. Það sem róbotar hafa umfram almennar ryksugur er að þeir krefjast þess ekki að við stöndum sjálf og stýrum ryksugunni á meðan hún ryksugar heimilið heldur getum við nýtt tímann okkar í aðra iðju á meðan. Þar sem tækninni fer ört fram þá hefur orðið talsverð breyting á getu tækjabúnaðarins frá því fyrstu ryksuguróbotarnir komu á markað og þeim sem eru í boði í dag, margir hverjir með tvöfalda virkni. Þeir geta ekki einungis ryksugað gólfin heldur einnig moppað þau og nú þarf enga sýndarveruleika veggi með aukahlutum þar sem þeir eru með innbyggða vörn gagnvart stigum og búnað til að stilla þá fyrir ákveðið rými í einu ef vilji er til þess. Ryksuguróbotar hafa einfaldað líf margra og ýtt undir meiri sjálfsbjargargetu fyrir þá sem eru með skerta hreyfigetu vegna veikinda eða fötlunar.

Tækjabúnaður til að einfalda hversdaginn á heimilinu

Hér má margt telja upp enda velferðartæknin víða og þótt sumt muni seint berast til Íslands vegna þess hvað við erum fámenn þá er hægt að kaupa ýmislegt gegnum internetið erlendis frá. Þar sem úrvalið er mikið þá verður stiklað á stóru í upptalningunni um snjalltækjabúnað.

Það fyrsta sem ég vil nefna er ljósabúnaður og -stýring því góð birta eykur öryggi og dregur úr fallhættu. Í dag fást ljósaperur og -búnaður sem hægt er að stýra með fjarstýringu, farsímanum eða snertilaust gegnum skynjara á góðu verði víða og má þar t.d. nefna Philips Hue ljósaperur og ljós, LED ljósbúnaður og IKEA snjallvörur. Tæknin gerir það að verkum að við getum betur tryggt góða lýsingu fyrir utan og inn á heimilinu og stýrt birtustiginu þannig að það henti þörfum okkar á daginn, kvöldin og á nóttunni við t.d. salernisferðir. Gott birtustig er eitt af þeim öryggisatriðum sem okkur ber að hafa í huga heima við til sjá betur það sem við tökum okkur fyrir hendur en einnig til að draga úr mögulegri fallhættu.

Snjalllásar, rafknúinn dyra- og gluggaopnari skapa tækifæri á að vera sjálfbjarga við að opna og loka hurðum og gluggum og læsa ef það er skert aðgengi að hurð eða glugga eða fyrir einstakling með skerta hreyfigetu. Slíkum búnaði er hægt að stýra gegnum fjarstýringu, síma og takka á vegg og á það líka við um dyrasíma í fjölbýlishúsum. Einnig er hægt að kaupa ýmsan gardínustýribúnað gegnum fyrirfram ákveðnar stillingar í forriti, fjarstýringu og slökkvara á vegg sem dregur fyrir og frá gluggum þegar okkur hentar út frá okkar lífsvenjum.

Snjóbræðslukerfi í innkeyrslu og að inngangi hússins dregur úr þörf fyrir að moka snjó ef hreyfigeta eða úthald er skert á meðan sumum finnst gott að búa í fjölbýli með lyftu og bílakjallara þannig að ekki þarf skafa af bílnum, moka frá hurðum né sinna garðrækt sem getur farið að verða sumum ofviða þegar hreyfigeta skerðist eða líkamsstyrkur.

Innkaup á netinu og heimsending

Tæknin og þjónustan er einnig farin að veita aðgengi að fjölbreyttu vöruúrvali innanlands sem erlendis frá á internetinu. Margir nýta sér þjónustuna til að versla matvörur á netinu gegnum tölvur, spjaldtölvur eða þess vegna á farsímanum ef það er snjallsími. Það getur reynst vel þegar verið er að versla frystivörur, mjólkurvörur og þær vörur sem ekki þarf að handvelja sérstaklega. Þessar vörur eru oft þungar og því gott að þjónustan bjóði upp á heimsendingu til að hlúa að vinnuvernd fyrir líkama sem hefur skert úthald eða krafta en einnig fyrir þá sem eru með fötlun sem hindrar sjálfsbjargargetu við innkaup. Í dag er hægt að versla auk matar, lyf, blóm, fatnað, húsgögn, gjafavöru og margt annað á netinu með öruggum hætti. Landssamband eldri borgara hefur gefið út leiðbeiningarbæklinga fyrir spjaldtölvur með IOS stýrikerfi og Android stýrikerfi fyrir þá sem hafa ekki notað slíkan tækjabúnað en langar að prófa sig áfram.

Mynd: Canva

Tilgangur velferðartækninnar er eins og sést, að einfalda almennar athafnir, auka öryggið í daglegu lífi og sjálfsbjargargetu ásamt því að stuðla að betri heilsu og einfaldari lífsstíl óháð aldri eða færni einstaklinga.

Þar sem efnið er viðamikið þá mun birtast innan skamms önnur grein sem framhald á þessari grein þar sem verður farið nánar í helstu hjálpartækin í daglegu lífi.

Landssamband eldri borgara, LEB – Einfaldar leiðbeiningar á iPad spjaldtölvu.
https://www.leb.is/wp-content/uploads/2021/01/Ipad-Bæklingur.pdf

Landssamband eldri borgara, LEB – Einfaldar leiðbeiningar á spjaldtölvu, Android stýrikerfi.
https://www.leb.is/wp-content/uploads/2021/01/Android-Bæklingur_2.-útg..pdf

Landssamband eldri borgara, LEB – Velferðartækni, gagnast hún mér?
https://www.leb.is/wp-content/uploads/2020/01/Velferðartækni-bæklingur-2020-1.pdf

Velferðarráðuneytið, 2015 – Stefna í nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu.
https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit-og-skyrslur-2015/Stefna_i_nyskopun_og_taekni_28092015.pdf

Tengdar greinar