Aðgerðaáætlun um heilsueflingu aldraðra

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir
Mynd: www.stjornarradid.is / Golli

Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra vann aðgerðaráætlun um heilsueflingu aldraðra sem nú hefur verið kynnt og verður til umræðu á heilbrigðisþingi næsta föstudag.  Aðalmarkmiðið er að gera eldri borgurum kleift að dvelja sem lengst í heimahúsum með aðgerðum sem miða að því að efla heilsu þeirra. 

Í frétt á vef stjórnarráðsins kemur fram að komið verði á formlegu samstarfi ríkis og sveitarfélaga um heilsueflingu aldraðra, stefnumótun um heilsueflingu og virkni verði liður í sóknaráætlunum landshluta, hlutverk heilsugæslunnar á þessu sviði verður aukið, unnið verður að markvissri fræðslu fyrir aldraða um heilsueflingu sömuleiðis verður stuðlað að betra heilsulæsi aldraðra. Þetta eru dæmi um aðgerðir sem ráðist verður í samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun um heilsueflingu aldraðra sem unnin var af starfshópi á vegum heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðuneytið leiddi vinnu hópsins. Auk starfsmanna þess sátu einnig í hópnum fulltrúar félagsmálaráðuneytisins, embættis landlæknis, Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Áætlunin skiptist upp í sex svið

Áætlunin er byggð upp í kringum sex svið, undir hverju þeirra eru tilgreindar nokkrar aðgerðir og sett fram mælanleg markmið til að meta árangur. Sviðin eru eftirtalin:

  • Samstarf um heilsueflingu
  • Gögn, greining og lýðheilsuvísar
  • Fræðsla og heilsulæsi
  • Virkni og vellíðan
  • Næring
  • Aðbúnaður og ytra umhverfi

Samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga

Í skýrslunni er lögð áhersla á að þær aðgerðir sem lagðar eru til séu samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.  Nokkuð hefur skort á skýra verkaskiptingu þarna á milli en fram kemur í skýrslunni að ábyrgð allra aðgerða sé í heilbrigðisráðuneytinu. Er það fagnaðarefni ef að togstreitu á milli þjónustukerfa verði eytt og unnið að því eina markmiði að efla heilsu og lífsgæði eldri borgara landsins.   Kostnaðargreining fyrir aðgerðir hefur þó ekki farið fram.

Áhugavert er að kynna sér áætlunina en slóð á hana er hér https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Heilsuefling-aldradra-Adgerdaaaetlun-2021.pdf

Tengdar greinar