Við tókum hús á Bylgju Dögg Guðjónsdóttur sem haldið hefur hrekkjavökupartý svo til á hverju ári síðan 2003. Okkur lék m.a forvitni á að vita hvers vegna hún hafi byrjað á þessum sið því fyrir 18 árum var ekki algengt að haldið væri upp á hrekkjavökuna á Íslandi.
„Það er mömmu að kenna að ég byrjaði á Halloween partýum„
Byrjunin er í raun mömmu að kenna segir Bylgja og hlær. Hún fór að tala um Halloween því hún var að vinna með konu frá Bandaríkjunum, Margo að nafni. Hún var oft að koma með einhverjar hryllingskökur í kaffitímanum þegar það var Halloween úti og mömmu fannst þetta svo sniðugt. Mamma fór síðan að rífa fréttir úr Vikunni og Morgunblaðinu þegar sagt var frá útlendingum á Íslandi sem voru að halda Halloween. Mömmu fannst kerin svo flott og allt svo skreytt og skemmtilegt. Hún er svo eitthvað að sýna mér þetta og það bara þurfti ekki meira til, ég ákvað bara að halda Halloween partý sem til að byrja með voru bara foreldrar mínir, systkini og börn. Það hefur aðeins bæst í hópinn síðan segir Bylgja Dögg.
Föndrar mikið af skrautinu sjálf
Í byrjun átti maður náttúrumlega ekkert skraut svo ég fór bara að föndra, málaði á sultukrukkur í staðinn fyrir grasker, reif niður svarta ruslapoka, klippti út leðurblökur úr svörtum pappír og hauskúpur úr hvítum A4 blöðum,
Þá var ekki hægt að kaupa grasker í búðunum eins og er hægt núna. Ég er svo búin að vera að finna alls konar skraut síðustu árin og bæti alltaf einhverju við á hverju ári. Ég ætla mér alltaf að hætta að bæta við, því það sé komið nóg en þarf samt alltaf að bæta ponsu við því ég er alltaf að sjá eitthvað sniðugt. Þegar við hittum Bylgju var hún akkúrat nýkomin af pósthúsinu þar sem hún var að fá sendar veggmyndir í hrekkjavökustíl.
Bylgja segist vera búin að föndra mjög mikið í gegnum tíðina og til dæmis búin að tæma dúkkusafnið á kreppumarkaðnum, “Ég veit ekki hvað eru margar dúkkur hérna og dúkkuhausar sem ég hef málað” segir Bylgja. Svo hef ég líka fengið í gjöf eitthvað af dóti.
Svo ef maður sér eitthvað í Tiger eða Rúmfó grípur maður í það. Bylgja sýnir okkur líkkistu sem hún bjó til í fyrra, hún er bara úr pappír segir Bylgja, jakkaföt af Óskari manninum mínum og svo bara einhver gríma úr Bónus.
Bylgja byrjar viku fyrir partýið að dúllast við að skreyta, hún segir þetta svo mikið að það sé ekki hægt að setja þetta allt upp á einum degi. Alls telur skrautið hennar Bylgju 10 stóra plastkassa sem geymdir eru upp á háalofti og svo er eitthvað af stærra dóti sem kemst ekki ofan í kassana.
Eitt stórt partý
Bylgja er með eitt aðalpartý fyrir fjölskyldu og vini. Það koma þá allir með rétti á hlaðborð í partýið og helst skemmtiatriði líka. En reynt er að hafa skemmtilegar uppákomur í partýinu s.s töfrabrögð og leiki.
Aðspurð sagðist Bylgja hafa haldið hrekkjavökupartý sleitulaust síðan 2003 ef frá er skilið eitt ár sem þau hjónin ákváðu að fara á rosaflotta hrekkjavökutónleika í Reykjavík sem dugði þeim alveg en hafi þá verið að svíkja aðra. En það var almenn óánægja með að hún hafi sleppt þessu eina ári hjá sumum af fastagestum svo Bylgja segir að hún geri það ekki aftur. Í fyrra var partýið svo mjög smátt í vöfum því Þórólfur skellti á samkomutakmörkunum á miðvikudeginum eða fimmtudeginum fyrir áætlaðan partýdag svo það var bara smá krakkapartý þá.
En ætli Bylgja muni vera með árlegt hrekkjavökupartý það sem eftir er ?
Já ég er alveg til í það svo lengi sem heilsan leyfir segir Bylgja. Hún segir svo að krakkarnir þurfi örugglega á endanum að koma og hjálpa til, kannski þegar hún verði orðin gömul. Hún segist ekki sjá neinn tilgang í því að hafa skrautið ónotað uppi á háalofti. Það er því engan billbug á Bylgju að finna.