Málefni eldra fólks í nýjum stjórnarsáttmála

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Ríkistjórnarsamstarf Framsóknarflokksins,Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var kynnt 28.nóvember ásamt stjórnarsáttmála um þær áherslur sem flokkarnir ætla að vinna að næstu fjögur árin.

Þeir tveir ráðherrar sem hafa mest með öldrunarmálin að gera eru félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra sem er Guðmundur Ingi Guðbrandsson þingmaður Vinstri grænna og heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson þingmaður Framsóknarflokksins. Verkefni ráðuneytanna tveggja virðast eiga að haldast að mestu óbreytt þegar kemur að eldri aldurshópum.

Guðmundur Ingi sagði þegar hann tók við lyklunum af Ásmundi Einari Daðasyni fráfarandi félags-og barnamála ráðherra að hann ætli að setja kjör öryrkja og aldraðra á oddinn, ásamt kjaramálum. Hann segir að hann vilji halda áfram þeirri vinnu að einfalda kerfið. Það sé of flókið og í stað þess þarf að koma kerfi sem gríp­ur ein­stak­linga sem ekki geta séð sér far­borða með at­vinnuþátt­töku. Willum Þór segir það svo mikla áskorun að taka við þeim stóru og mikilvægu verkefnum sem heyra undir ráðuneytið. Hann muni leggja sig allan fram í þeirri vinnu sem framundan er og taki stoltur við keflinu af Svandísi Svavarsdóttur fráfarandi heilbrigðisráðherra (www.stjr.is).

Áherslur nýrrar ríkisstjórnar í öldrunarmálum

Við kynntum okkur hvaða áherslur ríkisstjórnin hefur í öldrunarmálum:

Ríkisstjórnin ætlar m.a að auka velferðartækni sem er vel og mikilvægt til að bregðast við öldrun þjóðarinnar og auka lífsgæði eldri borgara. Segir í stjórnarsáttmálanum að ný tækni og stafrænar lausnir verði nýttar í auknum mæli í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og þannig stuðlað að bættri þjónustu, gæðum og aukinni hagkvæmni í rekstri. Fjarheilbrigðisþjónusta verði efld sérstaklega.

Í stjórnarsáttmála segir að stærsta breytingin á samsetningu samfélagsins næstu árin sé fólgin í því að þjóðin er að eldast. Mikilvægt sé að stuðla að heilbrigði og lífsgæðum fólks með áherslu á lýðheilsu og að fólki sé gert kleift að nýta hæfileika sína og krafta.

„Við ætlum að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu. Áfram þarf að þróa fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir, svo sem sveigjanlega dagþjálfun, og nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Sérstaklega verður lögð áhersla á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika. Einnig viljum við horfa til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera“ segir í stjórnarsáttmála.

Afkoma ellilífeyrisþega verður áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa. Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og frítekjumark atvinnutekna tvöfaldað um næstu áramót. Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara.

Í kafla stjórnarsáttmálans um stóru verkefni ríkisstjórnarinnar eru eftirfarandi atriði sett fram um málefni eldra fólk :

Stefna í þjónustu við eldra fólk frá 2021 verður grundvöllur vinnu við aðgerðaáætlun til fimm ára í samstarfi við sveitarfélög, samtök eldri borgara og þjónustuaðila, jafnt opinbera og sjálfstætt starfandi. Skipuð verður verkefnisstjórn í breiðu samráði til að vinna að þessum markmiðum og fylgja eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið, m.a. með drögum að frumvörpum og þingsályktun. Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu og hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu.

Tækni, nýsköpun, sveigjanleg dagþjálfun og heilsueflandi aðgerðir

Áfram verða þróaðar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, svo sem með sveigjanlegri dagþjálfun, og nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Sérstaklega verður lögð áhersla á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika.

Aukinn sveigjanleiki í starfslokum

Eldra fólki verður gert kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði, m.a. með auknum sveigjanleika í starfslokum. Horft verður til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera.

Almannatryggingakerfið endurmetið og frítekjumark tvöfaldað

Afkoma ellilífeyrisþega verður áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa. Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og frítekjumark atvinnutekna tvöfaldað um næstu áramót. Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara.

Aukinn stuðningur í húsnæðiskerfinu

Mæta þarf sérstaklega þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað með auknum stuðningi og auka framboð af ódýru leiguhúsnæði fyrir aldraða í samstarfi við sveitarfélögin og samtök aldraðra, m.a. í almenna íbúðakerfinu

Aldur er bara tala óskar ríkisstjórninni allri velgengni í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru og bindur miklar vonir við að málefnum eldra fólks verði vel sinnt sem skili sér í auknum lífsgæðum.

Tengdar greinar