Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir er ótrúlega kærleiksrík og gefandi kona sem býr í Vestmannaeyjum. Fyrir tveimur árum tók hún við rekstri og fjármögnun á heilsugæslu í þorpinu Kubuneh í Afríkuríkinu Gambíu. Reksturinn fjármagnar hún með sölu á notuðum fötum í verslun sinni sem heitir eins og þorpið Kubuneh. Hver króna af fatasölunni fer beint í að fjármagna heilsugæsluna og er öll vinna við verslunina í sjálfboðaliðastarfi. Fólk kemur með notuð föt og gefur til verslunarinnar sem svo eru endurseld, ýmsir aðilar hafa hjálpað til við saumaskap, afgreiðslu og fleira.
Góðgerðarverkefnið kallar Þóra Hrönn „Allir skipta máli“. Í því felst m.a að greiða laun starfsfólks og lyf fyrir sjúklinga en 12-15.000 manns hafa aðgang að heilsugæslunni.
„Allir skipta máli“ mun greiða fyrir nám starfmanna heilsugæslunnar sem vilja mennta sig til að verða hjúkrunarfræðingar eða ljósmæður. Engin ljósmóðir er í þorpinu en þar eru 3 hjúkrunarfræðingar. Stefnan er einnig á að mennta ljósmóðir svo konur geti fætt börnin sín í Kubuneh en það er ekki hægt eins og staðan er núna.
Gefur stúlkum og konum dömubindi
Samhliða þessu verkefni er Þóra Hrönn með verkefnið „For woman only kit“ sem veitir stúlkum og konum í Gambíu fræðslu um kvenlíkamann. Þeim er kennt að blæðingar eru merki um að þær séu heilbrigðar og ekkert til að skammast sín fyrir. Blæðingar eigi ekki að hindra þær við skólagöngu eða daglegt líf. Konurnar fá einnig fræðslu um getnaðarvarnir. Allir þáttakendur fá poka að gjöf sem inniheldur 8 fjölnota dömubindi, 2 þvottastykki, 2 nærbuxur, bækling og sápu. Sápan er búin til af ungri konu í Kubuneh en „Allir skipta máli“ kaupir sápuna af henni. Pokarnir, dömubindin og þvottastykkin eru saumuð í sjálfboðavinnu af konum í Vestmannaeyjum. Hópur eldri borgara tekur líka þátt í þessu verkefni með því að þræða bönd í pokana. Einstaklingar á Hæfingastöðinni Heimaey hjálpa einnig við þetta verkefni.
Keyptu sjúkrabíl fyrir þorpið
Núna eru Þóra Hrönn og Daði Pálsson eiginmaður hennar stödd í Gambíu þar sem þau voru m.a að festa kaup á sjúkrabíl fyrir þorpið. Þau eru svo að skipuleggja ýmsar endurbætur og byggingu á fæðingarheimili. Þau hjónin mættu svo á staðinn með ýmsan varning sem kemur í góðar þarfir þar ytra s.s sáraumbúðir,lyf, fatnað, bolta ofl.
Hægt er að fylgjast með þessum einstöku hjónum og fallega starfinu þeirra á instagramsíðu Kubuneh : kubunehverslun
Einnig er hægt að styrkja þetta frábæra verkefni með því að versla í Kubuneh búðinni sem er við Vestmannabraut í Vestmannaeyjum eða leggja inn á reikning ; 0582-14-7007 Kt. 700720-0470