Við heyrðum í honum Þorsteini Sigurbergssyni 81 árs íbúa á Höfn í Hornafirði eða Steina eins og hann er kallaður.
“Ég er nú ekkert gamall” byrjaði Steini á að segja þegar blaðamaður Aldur er bara tala hringdi í hann en í fyrstu tilraun til þess að ná í hann, var hann upptekinn því hann var að fara að setja fund sem hann var að stýra svo það er alveg ljóst að hann situr ekki auðum höndum. Hann segist enda vera í félagsmálum á fullu.
Ekki hættur að vinna
Steini er lærður vélstjóri og var til sjós í um 20 ár og síðan hann hætti til sjós hefur hann verið í vélgæslu og viðgerðum og slíku. Aðspurður hvort hann sé ennþá í því sagði hann það vera lítið en væri samt ekki hættur. Hann væri að bæta fiskikörin en það er samt orðið lítið. En hann segist alltaf vera eitthvað að bardúsa og hefur fengið gott orð sem ljósameistari á leiksýningum og öðrum sýningum á Höfn og víðar.
Steini er fæddur í sveitinni á Mýrunum en byrjaði fljótt til sjós og flutti þá á Höfn í Hornafirði. Það er ágætt að búa á Höfn segir hann og bauðst til að líta eftir íbúð fyrir blaðamann á Höfn svo það er greinilegt að honum er annt um sveitarfélagið sitt og vill gjarnan hvetja fólk til búa þar.
Hvernig tilfinning er það að eldast ?
Mér finnst ég eiginlega ekkert vera gamall ennþá en maður er auðvitað farinn að missa aðeins úthald. Ég var til dæmis s.l laugardag að sjá um lýsingu á leikriti og fann þegar ég kom heim að ég var þreyttur sagði Steini. Maður finnur fyrir því að maður er ekki eins og þegar maður var ungur, en Steina finnst hann alls ekki vera neitt gamall andlega.
Steini tekur fullan þátt í heilsueflingunni sem er fyrir eldri aldurshópa á Höfn og segir þjálfarinn að hann sé eldhress og mjög duglegur á hlaupabrettinu. Hann hefur sett sér að vera í ½ tíma til þrjú korter í ræktinni í einu og segist hann finna mikinn mun á sér frá því að hann byrjaði en hann var í byrjunarliðinu eins og hann orðar það í heilsueflingunni. Steini segist vera orðinn liðugri og þrekið sé líka að koma í rólegheitum. Hann segir hópinn samheldinn og það sé gaman að hitta fólk á sínum aldri í ræktinni tvisvar í viku.
Gleðigjafarnir
Steini er líka að syngja í kór og framundan eru vortónleikar. Æfingar eru einu sinnni í viku og heitir kórinn því skemmtilega nafni Gleðigjafarnir. Steini er svo líka í Hvítasunnukirkjunni og er hann gjaldkeri í söfnuðinum á Höfn. Hann er svo liðtækur í lýsingunni þar líka því hann hefur séð um þau á Kotmótunum í Fljótshlíð líka.
Steini gefur nokkur góð ráð til að halda sér ungum sem lengst en hann segir það vera jákvæða hugsun, ekki veltast í neikvæðni, leika bara Pollyönnu og taka hana til fyrirmyndar. Það eru góð ráð hjá Steina sem gott er að hafa sem veganesti í lífinu sama á hvaða aldri fólk er.