Sykursýki hjá öldruðum

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Eins og oft er með sjúkdóma hjá öldruðum er oft flóknara að meðhöndla sykursýki hjá þeim en þeim sem yngri eru. Aldraðir einstaklingar eru oft búnir að vera lengi með sína sykursýki og komnir með skemmdir í líffæri sem taka þarf tillit til, þeir eru oft með marga aðra sjúkdóma og á mörgum lyfjum, blóðsykursfall er algengara en hjá yngra fólki og það er meira um aðrar aukaverkanir af sykursýkislyfjunum. Fyrst eftir greiningu sykursýki tegundar tvö, oft á miðjum aldri, er mjög mikilvægt að ná hratt góðri stjórn á blóðsykri. Með hækkandi aldri og meiri sykurföllum þarf aftur á móti oft að létta á meðferð og leyfa hærri blóðsykur að meðaltali til að draga úr hættu á blóðsykursfalli. Það er mín reynsla að stundum þurfi að hætta lyfjameðferð hjá allra elsta hópnum.

Hvernig sjúkdómur er sykursýki ?

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af háum blóðsykri en orsakirnar geta verið nokkrar. Sýkursýki tegund 1 (10-15%) felur í sér skort á insúlíni vegna þess að beta frumur i brisi skemmast. Oftast greinist þessi tegund hjá börnum en til er undirtegund (LADA) sem getur greinst hvenær sem er.

Sykursýki tegund 2 (70-80%) felur í sér að viðnám við insúlíni eykst, annað hvort með eða án skorts á framleiðslu insúlíns. Svo eru til sjaldgæfari tegundir af sykursýki, t.d. vegna vanstarfsemi skjaldkirtils. Þessi grein fjallar um tegund tvö sem er algengust hjá eldra fólki.

Við sykursýki tegund 2 er um helmingurinn af sjúklingum í ofþyngd og með háþrýsting. Stór hluti sjúklinga er samt ekki of þungur. Algengasta einkennið er þreyta en ef sykur er mjög hár lengi finnur fólk fyrir þorsta og jafnvel léttist hratt.

Meðferð við sykursýki

Meðferð við sykursýki fer eftir hversu hár blóðsykur er við greiningu, hversu mikil einkenni eru og hversu gamall viðkomandi er við greiningu. Önnur lyf eru oft valin hjá þeim sem greinast eftir 80 ára en hjá þeim sem greinast fyrr á ævinni. Flestir einstaklingar með sykursýki tegund 2 eru meðhöndlaðir á heilsugæslustöðvum.

Hreyfing og breytt matarræði í samráði við næringarráðgjafa eru alltaf grunnmeðferð. Oft þarf að draga úr magni kolvetna. Þegar einstaklingur er of þungur getur lítið þyngdartap eða um 8% af heildarþyngd haft mikil áhrif á insulínviðnámið. T.d ef að einstaklingur er 100kg og nær að missa 8 kg. Lyf sem heitir metformin er fyrsta lyfið í töfluformi. Það hefur áhrif insúlínnæmi í lifur og vöðvum. Metformingjöf krefst að nýrnastarfsemi sé a.m.k. í meðallagi og það getur komið í veg fyrir töku lyfsins hjá öldruðum. Við blóðsykur yfir 15-20 mól/L til lengri tíma þarf að gefa insúlín í nokkrar vikur á meðan brisið jafnar sig. Síðan er fjöldinn allur af lyfjum með mismunandi virkni og aukaverkunum notaður.

Taka þarf tillit til margra þátta hjá elsta aldurshópnum

Einstaklingar við háan aldur, mikinn hrumleika, marga sjúkdóma og sykursýki eru sérstakur hópur. Þar þarf mjög einstaklingsmiðaða nálgun á meðferð. Meðal þeirra þátta sem taka á tillit til eru: hvort einstaklingur búi heima við eða á hjúkrunarheimili, sé með mikla færniskerðingu, hvort einhver minnistruflun sé komin til staðar, matarræði og matarlyst.

Skoða þarf önnur lyf, hvort viðkomandi fái aðstoð með insúlín, hversu góð sykurstjórnin er búin að vera undanfarin ár og hversu algeng blóðsykursföll eru. Hjá sumum er hægt að halda áfram með töluvert magn lyfja og nákvæma sykurstjórn, en í öðrum tilvikum verður áherslan mest á góða líðan og þá getur þurft að leyfa hærri blóðsykur. Ef einstaklingur er ekki talinn eiga langa lífsleið framundan er stundum nóg að hafa blóðsykur undir 15mmól/L.

Heimildir:

  1. Diabeteshandboken – klinisk resurs för diabetes – Distriktsläkare.com (distriktslakare.com)
  2. https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Sjuklingar-og-adstandendur/Sjuklingafraedsla—Upplysingarit/Naering/sykursyki_af_tegund-2_mataraedi_2019.pdf

Tengdar greinar