Er ógnvekjandi að eldast ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Fyrir suma getur tilhugsunin um að verða gamall verið ógnvekjandi. Æskudýrkunin er allsráðandi á samfélagsmiðlum og “breyttar sjálfur” passa ekki við raunveruleikann í speglinum.  Við tökumst á við alls konar verkefni í lífinu og það á öllum aldursskeiðum, verkefnin þegar líður á ævina eru ekki endilega erfiðari eða flóknari en á yngri árum en spegilmyndin bæði ytri og innri breytist.

 Mögulega hjálpar þroskinn og viskan okkur við viðfangsefnin þegar aldurinn færist yfir en það er einn af svo mörgum kostum við að eldast að það er að hafa (vonandi) lært af reynslu lífsins og kunna að meta það sem raunverulega skiptir máli. Verða sáttari við spegilmyndina.

Hvað skiptir máli þegar við eldumst ?

En hvað skiptir raunverulega máli ? Ég held að margir myndu svara því til að heilsan og fjölskyldan skipti mestu máli til að lifa hamingjusömu lífi.  En hvað er hamingja ? Er hamingja fólgin í því að vera laus við hrukkur og hin dæmigerðu öldrunareinkenni og vera eins og “breytt sjálfa”? Eða er hamingjan fólgin í því að eiga í góðum félagslegum samskiptum við sitt fólk ? Eða er hamingjan kannski fólgin í veraldlegum gæðum ?

Hver skilgreinir hamingjuna ? Er það ekki bara hver og einn og út frá þeim þáttum sem skipta hann persónulega mestu máli ?  Skv nýjustu lýðheilsuvísum Landlæknis dró úr hamingju fullorðinna og hlutfall mjög hamingjusamra lækkaði markvisst á milli ára. Það er alveg glatað að það dragi úr hamingju fólks en hvað er hægt að gera í því og hver getur gert eitthvað í því ?

Þarf ekki bara hver og einn að byggja upp sína hamingju innra með sér og út frá því sem skiptir hann máli?   Gæti þetta verið spurning um hvort þú horfir á glasið hálftómt eða hálffullt? Ef þú velur að horfa jákvætt á hlutina í kringum þig í stað þess að dvelja í neikvæðni ertu mögulega á réttri leið með að finna þína innri hamingju. Svo kannski snýst hamingjan bara um hugarfar.  Lærðu að elska sjálfan þig, hrukkurnar, fólkið í kringum þig og meira að segja verkina þína því þeir minna þig á að þú ert á lífi.  Þá kannski verður ekkert svo ógnvekjandi að eldast.

*“breyttar sjálfur“ = photoshopped selfies = myndir teknar af sjálfum sér sem búið er að fegra með tilheyrandi tækni

Tengdar greinar