Í mötuneytum félagsmiðstöðva velferðarsviðs hjá Reykjavíkurborg (www.reykjavik.is) geta gestir nú valið á milli grænmetisfæðis og hefðbundis fæðis. Byrjað var að bjóða upp á grænmetismáltíðir í nóvember og hefur sú viðbót mælst afar vel fyrir. Á hverjum degi eru búnar til í kringum þúsund máltíðir í eldhúsi velferðarsviðs á Vitatorgi.
Máltíðirnar eru ýmist bornar fram í mötuneytum borgarinnar eða sendar heim að dyrum. Mötuneytin eru til húsa í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar, í þjónustuíbúðum og í úrræðum fyrir fatlað fólk sem velferðarsvið rekur víðs vegar um borgina.
Misjafnt er á milli daga og á á milli staða hversu hátt hlutfall gesta velur grænmetismat en hlutfallið er á milli 6 og 8%.
Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhússins á Vitatorgi, segir ánægjulegt hversu hratt grænmetisfæðið er að festa sig í sessi á meðal notenda þjónustunnar. „Fyrsta skrefið í þessa átt var að byrja að bjóða upp á salatbar tvisvar í viku. Því var vel tekið og í framhaldinu ákváðum við að gera grænmetisfæði á matseðli að valmöguleika líka. Í upphafi voru pantanirnar rokkandi en nú er að komast ákveðið jafnvægi í þetta og við farin að geta áætlað magn nokkuð nákvæmlega,“ segir hann. Það sé mikilvægt enda sé allt kapp lagt á að takmarka matarsóun í eldhúsinu. Nánar má lesa um þessa nýbreytni á vef Reykjavíkurborgar hér