Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og eiginkona hans Elíza Reid fóru í tveggja daga opinbera heimsókn í Mýrdalshrepp nú í vikunni. Þau heimsóttu m.a hjúkrunar-og dvalarheimilið Hjallatún á þriðjudagsmorgun og var auðvitað vel tekið af íbúum og starfsfólki heimilisins. Þar nutu þau skaftfellskrar gestrisni og þáðu morgunkaffi með heimilisfólkinu.
Í ávarpi sem forsetinn hélt á hátíðarsamkomu í Vík þakkaði hann fyrir þá gestrisni sem þau hjónin höfðu notið í heimsókn sinni í Mýrdalshrepp og sagði þau hafa farið víða, kynnst mannlífi og menningu, atvinnuháttum og alls kyns sóknarfærum.
Hann ræddi þar m.a um að enginn skyldi vanmeta afl náttúrunnar og velti upp þeirri spurningu hvort Skaftfellingar hafi þróað með sér jafnaðargeð, stillingu og æðruleysi í sambúð sinni við Kötlu sem gnæfði yfir svo ægifögur.