Spilað í mesta bróðerni í eyjum

eftir Ritstjórn

Á hverju fimmtudagskvöldi kemur saman hópur hjá félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum og spilar félagsvist. Félagsvist hefur áratugum saman verið vinsæl hér á landi. Er þá oftast spilað á mörgum borðum, fjórir við hvert borð og færa sigurvegarar hverrar gjafar sig milli borða að spili loknu eftir ákveðnum reglum. Þessar reglur kveða einnig á um hver skuli gefa og hver sé í forhönd, en að öðru leyti er gefið eins og í vist. Röð spilaranna er einnig hin sama í öllum sögnum. Þeir sem sitja andspænis hvor öðrum spila saman.

Þegar við komum á svæðið voru mættir 20 spilarar en þau vildu gjarnan vera fleiri og hvetja að sjálfsögðu fleiri til að slást í hópinn. Halldór Halldórsson hefur yfirumsjón með spilakvöldunum en nýtur góðs liðsinnis þeirra systra Kristínar og Guðfinnu Georgsdætra.

Halldór segir allt spilað í mesta bróðerni þó auðvitað komi fyrir að fólk æsist í leiknum en það taki fljótt af.  Hann segir að félagsskapurinn sé frábær og ekki verra að hafa kaffi og kökur með.  Halldór segir þetta eina félagsstarfið sem hann stundi reglulega og það gefi sér mikið, hann sé ekkert í púttinu og ekki þýði fyrir sig að reyna fyrir sér í söngnum.  Borðfélagi hans skýtur þá inn í á léttum nótum að það geti nú allir sungið þegar komið er í tánna en það eru nú víst ekki alveg þannig veigar á söngæfingunum.  Það er greinilega létt yfir fólki þetta fimmtudagskvöld á síðasta kvöldi marzmánaðar.

Halldór segir að fólk greiði þátttökugjald á spilakvöldunum sem fari svo í vinningana sem eru þá peningaverðlaun.  Eftir því sem fleiri mæti séu verðlaunin hærri. Það er spilað á hverjum fimmtudegi þó er tekið hlé yfir sumartímann.

Tengdar greinar