Ert þú yfirleitt á undan öllum öðrum að borða?
Finnur þú oft fyrir mikilli seddu eftir máltíðir, þannig að þig langar að leggjast upp í sófa á meltuna?
Þá getur verið að þú borðir of hratt.
Sumir hafa vanist því að borða mjög hratt í gegnum tíðina t.d. vegna vinnu. Næringarfræðingar sjá þetta mynstur hjá mörgum, þ.e. að borða of hratt, sérstaklega hjá ákveðnum starfsstéttum t.d. hjá sjómönnum, leikskólakennurum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og bændum svo einhver dæmi séu tekin. Það getur verið vegna stuttra matarhléa eða einstaklingar þurfa að hlaupa frá og sinna einhverju vinnutengdu. Þetta getur líka átt við húsmæður sem hafa þurft að sinna mörgum börnum og verkefnum og borðað sjálfar síðast, kannski standandi.
Margir sem hafa unnið þessi störf eiga það sameiginlegt hvort sem þeir starfa enn í þeim störfum eða ekki, að borða ennþá mjög hratt, það verður að vana.
En er það svo slæmt að borða of hratt?
Ef maður borðar of hratt getur verið erfiðara að finna hvenær maður er orðin hæfilega södd/saddur. Það er vegna þess að það tekur smá tíma fyrir meltingarfærin að koma skilaboðunum til heilans að maður sé orðin saddur og þá eru margir búnir að borða mun meira en þeir þurfa og finna fyrir yfirþyrmandi seddu, sem getur verið mjög óþægilegt. Þegar við erum að borða daglega meira en líkaminn þarf getur það haft áhrif á líkamsþyngd.
Þeir einstaklingar sem borða of hratt eru einnig gjarnari á það að tyggja matinn minna en aðrir. Ef við tyggjum matinn ekki vel getur það haft áhrif á meltingareinkenni og valdið einhverjum óþægindum. Fyrsta stig meltingar er í munninum þegar við tyggjum matinn og blöndum matnum við munnvatnið og er það mjög mikilvægt skref sem margir eru að sleppa.
Stundum erum við búin að taka langan tíma í það að elda matinn en borðum hann svo á 5 mínútum og varla vitum hvernig hann var á bragðið. Stöldrum aðeins við og hægjum á okkur.
Nokkur ráð til þess að borða hægar:
- Passaðu að borða reglulega yfir daginn. Ekki láta líða alltof langan tíma á milli máltíða svo þú verðir ekki orðin allt of svöng/svangur þegar kemur að máltíðinni, því þá er erfiðara að borða hægar.
- Slökktu á sjónvarpi, leggðu frá þér símann eða tölvuna. Ekki hafa truflanir í kringum þig á meðan þú borðar.
- Þegar þú færð þér að borða, sestu við matarborð og notaðu hnífapör.
- Á milli bita, leggðu hnífapörin frá þér á meðan þú tyggur matinn vel og ekki taka hnífapörin upp fyrr en þú hefur kyngt bitanum á undan. Við erum oft búin að setja annan bita upp í okkur áður en við erum búin að kyngja síðasta bita.
- Vertu vakandi fyrir seddu skilaboðum frá líkamanum og þegar þú finnur fyrir seddu, stoppaðu þá að borða. Það er allt í lagi að leifa af disknum ef þú ert orðin södd/saddur, það kemur með tímanum að við lærum að skammta á diskinn eftir svengd.
- Gott er að bíða í smá stund áður en maður fær sér aftur á diskinn, því stundum er það vani en ekki svengd. Ef þú ert meira svöng/svangur fáðu þér meira þangað til þú finnur fyrir seddu.
- Athugaðu að þetta tekur smá æfingu og þarf að veita þessu athygli fyrst þegar verið er að prófa sig áfram með að borða hægar.