49 þúsund einstaklingar þurfa að endurgreiða til Tryggingastofnunar

eftir Ritstjórn

Árlegur endurreikningur vegna greiðslna frá TR liggur nú fyrir á Mínum síðum TR og á island.is fyrir árið 2022. Þau sem fengu of lágar greiðslur árið 2022 fá endurgreitt frá TR í sérstakri greiðslu 1. júní nk.

  • Um 74% lífeyrisþega, eða um 49 þúsund einstaklingar, fengu ofgreitt og þurfa að endurgreiða í samræmi við það, frá og með 1. september nk. Meðaltal þeirra sem skulda er tæplega 164.000 kr.
  • Rúmlega 17%, eða um 12 þúsund einstaklingar, eiga inneign. Lífeyrisþegar sem eiga inneign eiga að meðaltali rúmlega 215.000 kr.

Töluvert fleiri lífeyrisþegar fengu ofgreitt árið 2022 en árin á undan eða 74% miðað við 51% árið 2021. Aukinn fjöldi þeirra sem fengu ofgreitt er einkum tilkominn vegna áhrifa af háu verðbólgu- og vaxtastigi sem hefur haft talsverð áhrif á bæði lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur.

Af hverju stafar misræmið?

Greiðslur frá Tryggingastofnun  byggja á tekjuáætlunum lífeyrisþega,  þ.e. hvað þeir telja að þeir muni hafa í tekjur á komandi ári. Endurreikningurinn  byggir á tekjuupplýsingum úr staðfestum skattframtölum fyrir árið 2022. Þessi samanburður leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið greitt í samræmi við réttindi sín, eða hvort frávik valdi því að einstaklingur hafi fengið van-  eða ofgreitt á árinu.

Eðlilegt er að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning þar sem erfitt getur reynst að áætla tekjur fram í tímann. Rétt er að benda á að tiltölulega litlar breytingar á tekjum geta orsakað frávik frá greiðslum við endurreikning. Því leggur TR áherslu á mikilvægi þess að lífeyrisþegar uppfæri tekjuáætlun sína sem fyrst ef breytingar verða á upphæðum tekna

Meira um málið á www.tr.is

Tengdar greinar