Í gegnum árin hef ég séð svipað mynstur við innlagnir á sjúkrahús á fjölmörgum stofnunum hér á landi og í Svíþjóð. Eldri manneskja leggst inn út af bráðum veikindum. Samhliða meðferð við bráða vandamálinu liggur viðkomandi í rúminu í of marga daga, léttist og tapar almennri færni. Margir fá óráð og byltur og önnur vandamál eru algeng.
Svo tekur við endurhæfingartímabil þar sem möguleikarnir á að fá endurhæfingu eru mjög misskiptir. Þegar útskrift nálgast hefur einstaklingurinn oft tapað allri trú á að hann geti búið heima við og það sama má segja um ættingja viðkomandi. Ættingjar hafa oft sinnt sínum aldraða ættingja mikið heimavið og hafa tapað trúnni á að kerfið veiti viðeigandi aðstoð.
Næstum helmingur lenti í fylgikvillum meðan á sjúkrahúsdvöl stóð
Í einni rannsókn á 65 ára og eldri lentu næstum helmingur einstaklinganna í fylgikvillum á meðan á sjúkrahúsdvöl stóð. Algengustu fylgikvillarnir við sjúkrahúsdvöl eru óráð, versnun á líkamlegri og vitrænni færni, þvagleki, byltur og legusár.
Líkur á fylgikvillum eru enn hærri hjá þeim sem eru hrumir og fjölveikir eða með heilabilun. Við fylgikvilla eykst svo hættan á löngum legutíma og auknar líkur eru á að viðkomandi geti ekki útskrifast heim heldur þurfi að fara á hjúkrunarheimili.
Ástæður verri útkomu fyrir hruma og fjölveika aldraða á sjúkrahúsum eru fjölmargar. Þegar að eldri hrumur einstaklingur veikist versna gjarnan aðrir langvinnir sjúkdómar samhliða bráða vandamálinu og færnin versnar hratt. Sjúkrahúskerfið í dag er hannað til að eiga við eitt brátt vandamál í einu og almennt er umhverfið og skortur á mönnun ekki góð uppskrift til að eiga við fjölvanda og færnitap.
Heildrænt öldrunarmat (HÖM) notað samhliða meðferð við bráðu vandamáli
Á Sahlgrenska sjúkrahúsinu þar sem ég vann í 11 ár gerðum við rannsókn þar sem hrumum öldruðum einstaklingum var skipt upp annað hvort á lyflækningadeild eða á öldrunarlækningadeild þar sem heildrænt öldrunarmat með meðferðaráætlun (HÖM) (enska comprehensive geriatric assesment and treatment) er notað samhliða meðferð við bráðu vandamáli. Það sýndi sig að einstaklingar á öldrunarlækningadeildum voru líklegri til að hafa betri færni við athafnir daglegs líf ári seinna2. Aðferðafræðin er líka notuð á öldrunarlækningadeildum Landspítala, bæði bráðadeildum og endurhæfingadeildum.
Heildrænt öldrunarmat er ferli til að kortleggja færni og aðra þætti
HÖM er margþætt, kerfisbundið, þverfaglegt ferli til að meta og greina hæfni og takmörkun aldraðra einstaklinga, kortleggja líkamlega og andlega færni, vitræna getu, félagslega þætti og klínísk viðfangsefni. Forsenda HÖM er að teymið sem metur einstaklinginn ber líka ábyrgð á gerð meðferðaráætlunar, innleiðingu hennar og eftirliti3. Á legudeildum hittist þverfaglega teymið 1-2 í viku og stillir saman strengi. Í slíku teymi eru læknar,hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, en líka endurhæfingarstéttir svo sem sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfarar og gjarnan félagsráðgjafar og næringarfræðingar og lyfjafræðingar. Mikið samstarf er haft við sjúklinga og ættingja.
Endurhæfing er mikilvæg ýmist inniliggjandi eða heima
Til þess að hjálpa eldra fólki sem veikist þarf einnig að bjóða upp á endurhæfingu, ýmist inniliggjandi eða í heimaumhverfi. Síðan þarf að tryggja að hægt sé að bjóða upp á meiri eftirfylgd eftir útskrift svo viðkomandi einstaklingur og ættingjar finni fyrir öryggi við útskrift. Það er efni næstu greinar um öruggar útskriftir.
Heimildir:
1. Allison Mudge og fleiri: Hospital-associated complications of older people: a proposed multi-component outcome for acute care, Journal of American Geriatric Association 2019.
2Katarina Wilhelmson: Positive effects on activities of daily living one year after receiving comprehensive geriatric assessment – results from the randomised controlled study CGA-Swed,BMC Geriatrics 2022.
3Konstantin Shcherbak og Baldur Helgi Ingvarsson, öldrunarlæknar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Heildrænt öldrunarmat með meðferðaráætlun. Óbirt.