Innflytjendur eru meira einmana en aðrir eldri borgarar á Íslandi. 31 % innflytjenda eru nokkuð eða mikið einmana. Einnig eru þeir eldri borgarar sem búa einir og eru ekki í launaðri vinnu meira einmana. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem kynntar voru í dag og Félags-og vinnumálaráðuneytið lét gera á einstaklingum 67 ára og eldri. Könnunin átti sér stað í apríl til júní s.l og ber heitið “Einangrun eldra fólks. Greining á einangrun og einmanaleika fólks eftir uppruna”. Það var Félagsvísindastofnun sem gerði könnunina.
Innflytjendur, konur, þeir sem hafa lokið minni menntun og búa einir líklegri til að finna fyrir tilfinningalegum einmanaleika
Í könnuninni var einmanaleiki skilgreindur sem tilfinningalegur og félagslegur einmanaleiki. Tilfinningalegur einmanaleiki er þegar fólk finnur fyrir tómleika, saknar þess að hafa fólk í kringum sig og finnst því oft hafnað. Hærra hlutfall innflytjenda var með gífurlegan tilfinningalegan einmanaleika en þau sem skilgreindu sig af íslenskum uppruna. Konur og þeir sem búa einir ásamt þeim sem höfðu lokið minni menntun voru einnig líklegri til að finna fyrir tilfinningalegum einmanaleika. Það að eiga maka er verndandi þáttur gegn tilfinningalegum einmanaleika. Að missa maka hefur svo mikil áhrif á tilfinningalegan einmanaleika.
Félagslegur einmanaleiki
Félagslegur einmanaleiki er þegar fólki finnst fáir sem það getur leitað til ef það lendir í erfiðleikum. Það séu fáir sem það getur algjörlega treyst á og það séu fáir sem þvi finnst það náið með. Hærra hlutfall innflytjenda var með gífurlegan félagslegan einmanaleika heldur en þau sem skilgreindu sig af íslenskum uppruna. Hvað varðar félagslegan einmanaleika var ekki munur eftir kyni eða menntun en þeir sem bjuggu einir fundu frekar fyrir félagslegum einmanaleika.
Í alþjóðlegum samanburði stendur Ísland sig þó vel hvað varðar mælingar á einmanaleika eða sambærilega við nágrannaþjóðir og V-Evrópu.
Lítill munur á félagsleg virkni hjá innflytjendum og öðrum
Þegar skoðuð var félagsleg virkni var niðurstaðan að um 90% hitti einhvern utan heimilis a.m.k. einu sinni í viku. Um 75% fengu börn, ættingja eða vini í heimsókn eða öfugt a.m.k. einu sinni í viku. Félagsleg virkni var örlítið minni hjá þeim sem voru eldri og hjá innflytjendum, en lítill munur var þar á.
Þegar spurt var hversu oft börn, ættingjar og vinir koma í heimsókn eða svarendur færu í heimsókn kom þó í ljós að við samanburð milli ára að dregið hefur úr fjölda heimsókna. Árið 1999 voru daglegar heimsóknir hjá 29 % en 10 % árið 2023. Hins vegar hefur daglegum samskiptum í gegnum netið fjölgað mikið á milli ára.
Úrræði og aðgengi
Í könnuninni kom fram að aðeins tæpum helmingi allra þátttakenda fannst auðvelt að nálgast upplýsingar um félagsstarf og réttindi. Það er þáttur sem ætti að vera mjög auðvelt að breyta. Eftir stendur að leggja þarf sérstaka áherslu á að ná til innflytjenda og verður áhugavert að sjá hvaða línur félags-og vinnumarkaðsráðuneytið kemur til með að leggja eftir niðurstöður þessarar könnunar.