Við fengum hana Hrönn Egilsdóttur sem er leikskólakennari að mennt en starfaði síðustu 30 árin sem fjölskyldu-og uppeldisráðgjafi til að segja okkur aðeins frá jólahefðunum sínum fyrr og nú. Hrönn ólst upp í Vestmannaeyjum en hefur verið búsett á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi. Hrönn verður 70 ára á nýársdag.
Hvernig voru jólin þegar þú varst barn ?
Jólin voru yndisleg. Mamma var mikið jólabarn og smitaði mig af því. Þegar hún var að baka fyrir jólin vorum við Heiðar bróðir yfirleitt hjá henni og fengum að sleikja sleifarnar með kökudeiginu. Í þá daga voru bakaðar 10 til 14 sortir. Það var svo gaman að skreyta með mömmu, hún var með alls konar jólaskraut út um allt hús. Pabbi var hinn rólegasti yfir þessu öllu, sagði bara „Magga mín þú ert svo góð í þessu stússi“ og lagði sig í sófann. Á aðfangadag fengum við Heiðar – yngstu systkinin – alltaf að taka upp sitt hvorn pakkann fyrir matinn, aðeins að róa okkur tvíburana . Það var passað uppá að það væri eitthvað skemmilegt dót. Maturinn var alltaf tilbúinn kl. 18:00 og mamma settist líka við borðið. Það gerði hún bara á jólunum.
Var eitthvað sérstakt sem var alltaf á jólaborðinu hjá ykkur?
Já það var hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi meðlæti og eftirrétturinn var annað hvort heimatilbúinn ís eða frómas með blönduðum ávöxtum úr dós.
Manstu eftir einhverju skemmtilegu eða óvenjulegu sem gerðist á jólunum?
Ég fékk það hlutverk að pússa eplin með viskustykki þannig að þau urðu glansandi rauð. Ég mátti borða eitt epli á meðan,en við fengum epli bara á jólunum þá.
Eru einhverjar jólahefðir sem þú hefur haldið í gegnum tíðina?
Þegar ég fór að búa sjálf var ég alltaf með hamborgarhygg á aðfangadag og heimatilbúinn ís. En í dag er ég með hann á nýársdag.
Hver var þín uppáhalds jólahefð eða siður?
það var alltaf siður að fara til ömmu Beggu á Hvanneyri /Vestmannabraut 60 þegar við vorum búin að borða og opna jólapakkana. Alltaf svo notalegt .
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið ?
Kiddi bróðir var háseti á norsku skipi í 3 ár. Eitt skipti þegar hann sigldi til Ítalíu sá hann dúkku sem hann sendi til eyja og gaf mér í jólagjöf. Þessi dúkka var svo stór og falleg að ég hefði ekki þurft fleiri gjafir þau jólin.
Hvað var það sem gerði jólin sérstök fyrir þig ?
Lengi vel saumaði mamma jólafötin á okkur Heiðar. Ég man sérstaklega eftir matrósafötunum. Margt fleira má nefna: Jólaljósin, jólaskreytingar, jólapakkar ,jólabaksturinn; allt svo dásamlega gaman og ekki má gleyma jólalögunum. Jólatréð var alltaf skreytt á Þorláksmessu. Við Heiðar fengum að sjá um það. Þegar englahárin voru sett yfir var allt fullkomið. Yndisleg minning þegar pabbi kveikti í arninum og við sátum saman inni stofu.
Hvað þýða jólin fyrir þig í dag ?
Núna er hefð hjá mér að baka sörurnar og fleiri smákökur með elsku Hrefnu tengdadóttur minni, Hörpu Hrönn ömmugulli, Þórey systur Hrefnu og mömmu þeirra, yndisleg samverustund. Og ekki má gleyma laufabrauðsbakstrinum með öllum ömmugullmolunum mínum. Þegar ég eignaðist Egil son minn gat ég gefið honum þá miklu jólagleði sem ég ólst upp við. Síðan koma barnabörnin 3 sem er dásamlegt að upplifa jólagleðina með. Fyrir mér eru jólin yndisleg.
Í dag bý ég með yndislegum eyjapeyja Einari Gylfa Jónssyni og held áfram að halda gleðileg jól.