Að hugsa um og annast ástvin sem þarf á aðstoð að halda vegna aldurs, veikinda eða fötlunar á sér bæði gefandi og krefjandi hliðar. Oft eru umönnunaraðilar fjölskyldumeðlimir, oftar konur en karlar sem taka á sig mikla ábyrgð og finna oft fyrir tilfinningalegu álagi.
Þrátt fyrir gefandi hlið þess að annast ástvin getur langvarandi erfið umönnun haft neikvæð áhrif á heilsu og lífsgæði þess sem í hlutverkinu er. Rannsóknir hafa sýnt fram á að umönnunaraðilar eru m.a. í aukinni hættu á að fá hjartasjúkdóma, háan blóðþrýsting og þunglyndi. Það er oft auðveldara að hugsa um vandamál annara en sín eigin. En til að geta hugsað sem best um aðra þarf að huga að eigin heilsu.
Ef þú ert umönnunaraðili og ert farinn að finna fyrir eftirfarandi einkennum þá er líklegast kominn tími fyrir þig að staldra við og sinna sjálfum þér betur. Ert alltaf þreyttur eða búinn á því, verður pirraður af minnsta tilefni, átt erfitt með svefn, ert búinn að missa sjónar á áhugamálum þínum eða ert farinn að upplifa líkamlega vanlíðan.
Stuðningur og lausnir
Til að draga úr umönnunarálagi er mikilvægt að nýta sér þau bjargráð sem eru í umhverfinu og leita stuðnings. Hér eru nokkrir þættir sem gott er að huga að :
Stuðningur annarra. Kynntu þér þau úrræði sem þjónustustofnanir bjóða upp á og hinn veiki gæti verið tilbúinn í. Þetta getur til dæmis verið dagþjónusta, heimahjúkrun, hvíldarinnlagnir eða stuðningsþjónusta sveitarfélags á heimili. Oft er líka annað fólk í kringum þann sem þarfnast umönnunar sem er tilbúið að koma inn og aðstoða. Hægt er að setja upp hóp á messenger eða deilt excelskjal þar sem skipulega er skipt verkefnum á milli fjölskyldu og vina sem eru tilbúnir að koma inn og aðstoða. Auðvitað þarf að gera þetta allt með samþykki þess sem er veikur.
Endurhleðsla. Taktu frá tíma fyrir þig á hverjum degi til að endurhlaða batteríin. Farðu í göngu, hugleiddu, breyttu um umhverfi, hittu annað fólk eða gerðu það sem nærir þig. Hafðu rútínu á svefninum og borðaðu hollt. Það er nauðsynlegt að stíga reglulega út úr aðstæðum sem eru krefjandi og hlúa að sjálfum sér.
Sýndu þér mildi. Það er algengt að umönnunaraðilar finni fyrir alls konar tilfinningum í hlutverkinu. Þú getur verið leiður, svekktur, fullur vonar og bjartsýni eða glaður allt á sama klukkutímanum. En það er allt í lagi og það þarf ekki að skammast sín fyrir tilfinningarnar sem koma upp.
Þekktu mörkin þín og hvenær það er kominn tími á frí. Talaðu við einhvern í fjölskyldunni eðaleitaðu þér faglegrar aðstoðar hvort sem það er hjá félagsráðgjafa, lækni, hjúkrunarfræðing eða sálfræðing ef þér fer að líða eins og þú sért að gefast upp og þarft aðstoð.
Jafningjastuðningur. Settu þig í samband við aðra sem eru í svipaðri stöðu og þú, reglulegt spjall við þá sem skilja hvað þú ert að ganga í gegnum er gagnlegt.
Umönnun ástvina er mikilvægt og gefandi hlutverk en oft vanmetið og er gífurlegt álag á þann sem því sinnir. Það getur virkað yfirþyrmandi að hugsa um sjálfsrækt fyrir þá sem eru í þessu hlutverki en einungis lítil skref á þá átt skipta máli.
Síðast en ekki síst er mikilvægt að opinberir aðilar, sveitarfélög og ríki sem hafa það hlutverk að sinna velferðar- og heilbrigðismálum átti sig á mikilvægi þess að hafa þjónustuna fjölbreytta og góða með einstaklingsmiðuðum úrræðum. Það er engum greiði gerður með því að út frá einum veikum einstaklingi veikist fleiri í kring af umönnunarálagi. En úrræði og stuðningur hins opinbera við svokallaða óformlega umönnunaraðila er efni í aðra grein.