Rauðvínsglas og ostar eru ljúffengir á hvaða veisluborði sem er og margir njóta. Ný rannsókn sýnir að vín og osta má setja á lista yfir þau matvæli sem bætt geta hugræna færni.
Ný rannsókn sem gerð var af vísindamönnum í Bretlandi og var birt í Journal of Alzheimers Disease leiddi í ljós að rauðvín og ostar sem neytt var í hófi geta haft verndandi áhrif gegn vitrænni skerðingu. Rannsóknin hefur vakið mikla athygli. Áður hefur verið sýnt fram á að matur á borð við granatepli, ber, epli og fæða sem er rík af sínki geta bætt vitræna heilsu. En rauðvín og ostar ? Það er of gott til að vera satt.
Rannsóknarefnið var hugræn færni þátttakenda
Rannsóknin var yfir 10 ára tímabil og náði til tæplega 1800 manna úrtaks á aldrinum 46 – 77 ára. Rannsóknin sýndi fram á að minni líkur væru á að að þróa með sér Alzheimer sjúkdóminn sérstaklega með því að borða ost, en sýndu líka fram á að með því að drekka rauðvín í hófi daglega væri hugræn færni betri. Rannsóknin benti einnig til þess að neysla á lambakjöti einu sinni í viku gæti haft jákvæð áhrif á hugræna færni, þessi fylgni fannst ekki við annað rautt kjöt. Á hinn bóginn voru vísbendingar í rannsókninni um að mikil neysla á salti gæti leitt til hættu á vitrænni skerðingu. Í unnum matvælum er gjarnan mikið salt og ber því að forðast unnar matvörur.
Er þá kominn tími til að breyta mataræðinu ?
Vísindamenn stíga varlega til jarðar með niðurstöður rannsókna sem þessarar. Þó hún sýni fram á tengsl milli neyslu á ostum, rauðvíns og betri hugrænnar færni að þá þarf fleiri rannsóknir til staðfestingar. Brandon Klinedinst, meðhöfundur rannsóknarinnar og doktorsnemi í taugavísindum við Iowa State University sagði aðspurður að hann myndi ekki segja neinum að breyta mataræði sínu bara út frá þessari einu rannsókn. Hann bætti hins vegar við að rannsóknin væri sérstök að því leyti að hún skoðaði mataræði og hugræna færni yfir lengri tíma. Í henni væru þó sannarlega sterkar vísbendingar um að svokallað miðjarðarhafsmataræði væri ákjósanlegt.
Annað lykilatriði í niðurstöðum rannsóknarinnar var hófsemi. Þeir sem upplifðu betri hugræna drukku vínið yfir langt tímabil (ekki allt í einum rykk) og með mat sem hægir á upptöku líkamans á því. Fæstir vísindamenn mæla þó með því að fólk fari að byrja á að drekka áfengi af heilsufarslegum ástæðum, sér í lagi ef þeir drekka það ekki fyrir.
Annað gildir um osta. Þessi rannsókn og fleiri sem gerðar hafa verið sýna fram á jákvæð áhrif notkunar á ostum fyrir hugræna færni. Það ætti því að vera nokkuð öruggt og einfalt að bæta ostunum við daglegt mataræði, ekki kom þó fram hvaða tegund af ostum væri ákjósanlegust.
Lauslega þýtt frá vefsíðunni betteraging.com