Hér svarar Flokkur fólksins spurningum um öldrunarmál og hvaða áherslur þeir hafa í þessum mikilvæga málaflokki
Hvaða áherslur hafið þið varðandi lífeyrismál eldri borgara ?
Flokkur fólksins telur að draga þurfi verulega úr skerðingum á ellilífeyri. Flokkurinn hefur á yfirstandandi kjörtímabili lagt fram fjölda frumvarpa þar að lútandi. Þar ber helst að nefna frumvarp um 100.000 kr. frítekjumark vegna lífeyristekna og frumvarp um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna. Einnig vill flokkurinn hækka skattleysismörk verulega, en slík aðgerð myndi auka ráðstöfunartekjur eldri borgara svo að um munar. Okkar markmið er að eldri borgarar fái ávallt að minnsta kosti 350.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, skatta- og skerðingalaust.
Hvaða áherslur hafið þið varðandi þjónustu við eldri borgara í heimahúsum þegar færnin minnkar ?
Við viljum efla úrræði sem veita fólki aukna möguleika á að búa í heimahúsum ef það kýs svo. Eldri borgarar eiga auk þess ekki að þurfa að borga fyrir slíka þjónustu.
Eru þið með áherslur hvað varðar forvarnir- og endurhæfingu fyrir eldri borgara til að halda færni sem lengst ?
Við viljum styðja og efla forvarnir og endurhæfingu fyrir eldri borgara. Það eru miklir hagsmunir í því að aðstoða fólk við að halda færni sem lengst. Aldraðir þurfa að komast í þá aðstöðu að geta nýtt sér lýðheilsu á borð við Janusar verkefnið. Það hefur sýnt sig og sannað að það verkefni hefur gjörbreytt lífi þeirra varðandi færni til athafna daglegs lífs.
Eruð þið með á stefnuskránni að fjölga hjúkrunarrýmum eða gera einhverjar breytingar hvað hjúkrunarheimili varðar ?
Ein alvarlegasta vanræksla stjórnvalda gagnvart eldri borgurum er skortur á dvalar- og hjúkrunarheimilum í landinu. Það ætti að vera markmið löggjafans hverju sinni að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld en ekki baka þeim eins miklar áhyggjur, kvíða og vanlíðan og raun ber vitni. Það er þjóðarskömm að enn skuli aldraðir liggja langdvölum inni á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dýrasta úrræði sem völ er á sennilega í víðri veröld, þrátt fyrir að meðferð þar sé lokið.
Flokkur fólksins telur nauðsynlegt að ráðast í stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma. Gildandi áætlanir virðast gera ráð fyrir því að fólk eigi einfaldlega að vera heilbrigt lengur og leggja því ekki til nógu mikla uppbyggingu. Það er skylda stjórnvalda að hugsa vel um aldraða og búa þannig um hnútana að þeir geti lifað mannsæmandi lífi síðustu ár, mánuði, vikur og daga ævinnar. Við viljum róttækar aðgerðir í þessum málum strax.
Efri árin eiga að vera gæðaár!