Aldur er bara tala sendi stjórnmálaflokkum í framboði nokkrar spurningar um öldrunarmál. Svörin eru birt í þeirri röð sem þau berast. Hér svarar Sjálfstæðisflokkurinn sínum spurningum
Hvaða áherslur hafið þið varðandi lífeyrismál eldri borgara ?
Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki strax í 200 þúsund krónur á mánuði.
Sjálfstæðisflokkurinn vill innleiða nýtt fyrirkomulag ellilífeyris almannatrygginga. Markmiðið er að styrkja stöðu þeirra sem eru með takmörkuð réttindi í lífeyrissjóðum og hverfa frá skerðingum. Þetta verði gert með sérstakri lífeyrisuppbót sem tekur mið af réttindum hvers og eins í lífeyrissjóði. Aðrar skattskyldar tekjur eldri borgara – s.s. atvinnutekjur, séreignasparnaður, fjármagnstekjur – skerða ekki lífeyrisuppbót. Með öðrum orðum: Samtímatekjur eiga ekki að leiða til skerðinga en verða skattlagðar með sama hætti og eftir sömu reglum og skattskyldar tekjur annarra.
Markmiðið er skýrt: Með lífeyrisuppbót, sem ríkið fjármagnar, er verið að jafna stöðu eldri borgara gagnvart ellilífeyri úr lífeyrissjóðum. Þannig verði öllum eldri borgurum tryggðar ásættanlegar tekjur.
Með breytingunum er tryggð varanleg leiðrétting á kjörum þeirra sem verst eru staddir í lífeyriskerfinu. Um leið gætu eldri borgarar aukið tekjur sínar og tekið virkan þátt í atvinnulífinu með auknum sveigjanleika og án skerðinga.
Hvaða áherslur hafið þið varðandi þjónustu við eldri borgara í heimahúsum þegar færnin minnkar ?
Eru þið með áherslur hvað varðar forvarnir- og endurhæfingu fyrir eldri borgara til að halda færni sem lengst ?
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst. Efla verður heimaþjónustu og heimahjúkrun sem taki mið af þörfum hvers og eins. Nauðsynlegt er að auka skilvirkni og bæta heildarþjónustu við eldri borgara, samþætta betur heimaþjónustu, heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu og sálgæslu og styrkja heilsueflingu og tryggja greitt aðgengi eldri borgara að sjúkraþjálfun.
Eruð þið með á stefnuskránni að fjölga hjúkrunarrýmum eða gera einhverjar breytingar hvað hjúkrunarheimili varðar ?
Byggja verður upp öfluga dagþjónustu, fjölga þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, en um leið auka sjálfstæði eldri borgara hvað varðar val á milli þess að búa sem lengst á eigin heimili eða dvelja á hjúkrunarheimili. Nýta ber betur sjálfstætt starfandi fyrirtæki á þessu sviði og tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt eldri borgara og fjárhagslegt sjálfstæði. Endurskoða verður fjármögnun hjúkrunarheimila, setja skýrari viðmið um þjónustu og taka tillit til eðlilegs húsnæðiskostnaðar. Lyfjakostnaður skal vera utan við rekstur hjúkrunarheimila sem og kaup á sérhæfðum hjálpartækjum.