Norrænt samstarf um heilabilun og kynning á FINGER forvarna- og rannsóknaverkefninu

eftir Ritstjórn

Þekkt forvarna- og rannsóknaverkefni um heilabilun sem kallast FINGER verður kynnt á opnum fundi í fundarsal Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu 8 í Reykjavík þriðjudaginn 16. maí næstkomandi kl 15. Verkefnið er finnskt og var þróað og skipulagt af prófessor Miiu Kivipelto. Niðurstöður þess hafa vakið athygli fyrir góðan árangur hjá þátttakendum og orðið að fyrirmynd margra forvarnaverkefna á þessu sviði víða um lönd. Kynningarfundurinn er haldinn í tengslum við árlegan vorfund norræna samstarfshópsins um heilabilun sem fram fer í Reykjavík dagana 15. og 16. maí.

Miia Kivipelto hefur lengi unnið að rannsóknum í faraldsfræðum og forvörnum gegn heilabilun. Verkefnið FINGER er þekktasta framlag hennar á þessu sviði. Verkefnið hófst í Finnlandi fyrir meira en áratug. Það fólst í skipulegri samsetningu á nokkrum forvarnaaðgerðum gegn heilabilun fyrir skilgreindan hóp og var árangurinn borinn saman við svipaðan hóp sem ekki tók þátt í verkefninu.

Verkefnið stóð í tvö ár og vakti árangurinn töluverða athygli og hefur orðið að fyrirmynd margra verkefna víða um lönd. Upphaflegum þátttakendum hefur nú verið fylgt eftir í 10 ár og mun Miia kynna þær niðurstöður á fundinum og setja í stærra samhengi

Af vef stjórnarráðsins www.stjornarradid.is þar sem lesa má meira um málið

Tengdar greinar