Á heimasíðu Landssambands eldri borgara segir að troðfullt hafi verið útúr dyrum á málþingi LEB um kjaramál eldra fólks sem haldið var mánudaginn 2. október sl.
4.493 fylgdist með á streymi sem aðgengilegt var bæði á vef LEB og á visir.is en oft voru margir að horfa á streymi saman víða um land svo talan samtals er enn hærri!
Tuttugu manns steig á svið og flutti tölu eða tók þátt í pallborðum. Það voru stjórnmálamenn, sérfræðingar í kjörum eldra fólks, forystufólk verkalýðshreyfingarinnar og fjöldi eldri borgara.
Í lokin var samþykkt einum rómi eftirfarandi ályktun:
Ályktun málsþings Landssambands eldri borgara 2. október 2023
20 þúsund manns undir eða við lágmark
Landssamband eldri borgara bendir á að um tuttugu þúsund manns lifa rétt við eða undir lágmarksmörkum og þola engar óvæntar uppákomur. Allar hækkanir á vöruverði og þjónustu bitna hart á þessum hópi, ekkert má fara úrskeiðis.
Kjör og aðstæður þeirra sem verst eru sett, eru hins vegar einu ríkasta samfélagi heims til skammar. Þetta er fólk sem hefur litlar sem engar lífeyristekjur, hefur alla tíð haft lítil laun, er að hluta til aðflutt og í miklum meirihluta konur
Við leggjum til sértækar aðgerðir fyrir þau verst settu:
- Sérstakt skattþrep / Hækkun persónuafsláttar, – taki fyrst og fremst til lífeyristaka
- Minni eða engar skerðingar hjá þeim sem eru undir viðurkenndu framfærsluviðmiði
- Þau lægstu fái sérstakar greiðslur sem fjari út í hlutfalli við tekjur.
Við leggjum til almennar aðgerðir sem koma þeim best sem eru með lágar- og miðlungstekjur:
- Hækkun frítekjumarks í 100.000 kr. Frítekjumarkið er 25 þúsund krónur og hefur ekki hækkað síðan í ársbyrjun 2017. Kæmi þeim best sem eru með lægstan lífeyri.
- Ellilífeyrir verði aldrei lægri en lægsti kauptaxti. Hann er núna 315 þúsund, tæplega 90 þúsund undir lágmarkstaxta.
- Árlegar hækkanir lífeyris og frítekjumarka fylgi launavísitölu.
Landssamband eldri borgara biðlar sérstaklega til verkalýðshreyfingarinnar um stuðning við fyrrum félaga sína í harðri kjarabaráttu. (Heimild: www.leb.is)