Forsetaúrskurður um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu tók gildi 15.marz, líkt og greint er frá í frétt á vef forsætisráðuneytisins. Ýmsar breytingar verða á skiptingu öldrunarmála milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og húsnæðismálaráðuneytis
Helstu breytingar eru :
- Húsnæðismál öldrunarstofnana verða á hendi félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, í stað heilbrigðisráðuneytisins áður. Í því felst m.a. uppbygging hjúkrunarheimila, skipulag, áætlanagerð, samningar um framkvæmdir og allt þar að lútandi.
- Framkvæmdasjóður aldraðra flyst til félags- og húsnæðismálaráðuneytis. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og eru veittir styrkir úr sjóðnum til framkvæmda við byggingu og endurbætur á t.d. hjúkrunarheimilum, dagdvölum aldraðra, þjónustumiðstöðvum
- Dvalarrými sem hafa verið á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og þjónusta þeim tengd flyst til félags- og húsnæðismálaráðherra
- Almenn dagdvalarrými og þjónusta þeirra flyst frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til ráðuneytis félags-og húsnæðismála en sérhæfð dagdvalarrými s.s fyrir einstaklinga með heilabilun flytjast ekki
- Gott að eldast verkefnið verður áfram í félags- og heilbrigðisráðuneytinu ásamt annarri opinni öldrunarþjónustu s.s félagsleg heimaþjónusta, þjónustuíbúðir og félagsmiðstöðvar fyrir aldraða
Hvernig verður kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga ?
Það vekur athygli að þrátt fyrir tilraunaverkefni á vegum Gott að eldast um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar verður ábyrgðin áfram í sitthvoru ráðuneytinu. Einnig er dagdvalarrýmum nú skipt upp á milli ráðuneyta eftir því hvort þau eru almenn eða sérhæfð.
Dvalarrými sem eru víðast hvar inn á hjúkrunarheimilum ásamt hjúkrunarrýmum eru núna á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðuneytis. Dvalarrýmum hefur reyndar fækkað til muna á síðustu árum.
Eftir sitja spurningar um hvernig kostnaður og rekstur á þeim þáttum sem er nú skipt upp verður á milli sveitarfélaga og ríkis. Umræðan síðustu árin hefur verið að sameina öldrunarþjónustu undir einn hatt til einföldunar og til hagsbóta fyrir þjónustuþegana. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig málin þróast eftir þessa breyttu skipan.
Nánar um breytta skipan á vef stjórnarráðsins www.stjornarraduneytid.is