Ellilífeyrisþegar voru rúmlega 53 þúsund í desember árið 2021 og fjölgaði um 3,7% frá fyrra ári. Þar af voru rúmlega 25 þúsund karlar og tæplega 28 þúsund konur. Ellilífeyrisþegum, sem eingöngu fá greitt frá lífeyrissjóðum, hefur fjölgað á meðan færri fá eingöngu greitt frá Tryggingastofnun.
Tæplega 65% mannfjöldans, 60 ára og eldri, fengu greiddan ellilífeyri í desember 2021 en hlutfallið hefur verið á bilinu 60 til 65% frá árinu 2007. Hlutfallið er hins vegar misjafnt eftir aldurshópum. Mest hefur fjölgað í aldurshópnum 65 til 66 ára en þar voru ellilífeyrisþegar tæplega 40% mannfjöldans árið 2021 en voru um 25% árið 2007. Hafa ber í huga að þó lífeyrisgreiðslur séu hafnar þá getur einstaklingur enn verið í hlutastarfi á vinnumarkaði
Hlutfallslega fleiri fengu eingöngu greiðslur frá lífeyrissjóðunum í desember 2021 samanborið við árin 2007 og 2014. Eins fengu hlutfallslega færri eingöngu greitt frá Tryggingastofnun í desember 2021 samanborið við árin á undan.
Hagstofa Íslands birtir upplýsingar um fjölda lífeyrisþega í desember ár hvert. Finna má þar upplýsingar fyrir árin 2007 til 2021. Upplýsingarnar taka til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris auk örorkustyrks og skiptast þær eftir greiðendum, þ.e. almannatryggingum og samtryggingardeildum lífeyrissjóða, án tvítalningar.
Heimild: www.hagstofa.is