Fyrstu skóflustungur að nýju hjúkrunarheimili á Höfn

eftir Ritstjórn

Heilbrigðisráðherra ásamt elstu íbúum Hornafjarðar og elstu börnum af leikskólanum Sjónarhóli tóku í gær fyrstu skóflustungurnar að nýju hjúkrunarheimili á Höfn sem er áætlað að verði tekið í notkun árið 2024. Framkvæmdin felur í sér 1.400 fermetra viðbyggingu við eldra húsnæði Skjólgarðs sem jafnframt verður endurgert. Hjúkrunarrýmum mun fjölga um sex og aðbúnaður fyrri íbúa breytast til hins betra. 

Á Skjólgarði eru núna 24 hjúkrunarrými og nær öll þeirra eru tvíbýli. Með framkvæmdinni verða öll hjúkrunarrýmin einbýli, 20 þeirra í nýbyggingunni og 10 í núverandi húsnæði Skjólgarðs. Húsheild ehf. mun sjá um framkvæmdirnar. Ríkissjóður mun fjármagna 75,3% kostnaðarins á móti 24,7% hlut sveitarfélagsins (stjr.is).

Á vef Hornafjarðar segir að nýtt hjúkrunarheimili hafi lengi verið eitt að baráttumálum hornfirðinga og er það gleðilegt að fyrstu skrefin hafi verið tekin að viðstöddum 250 manns á öllum aldri. Að lokinni athöfninni var boðið til samsætis í Ekru sal félagsstarfs aldraðra þar sem börn frá Tónlistarskóla Austur- Skaftafellssýslu spiluðu á hljóðfæri. Seinna um daginn var svo einnig samsæti á Skjólgarði þangað sem gestum var boðið til þess að fagna með íbúum.  

Við óskum Hornfirðingum til hamingju með þennan áfanga

Tengdar greinar