Dvalarheimili aldraðra í Þingeyjarsýslum sf. (DA sf) hefur samið við Heilbrigðisráðuneytið um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands muni taka yfir rekstur hjúkrunar og dvalarrýma félagsins í Hvammi frá og með 1. febrúar næstkomandi. Heilbrigðisstofnun Norðurlands og þar áður Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hafa verið með samning um stjórnun og hjúkrunarþjónustu á heimilinu frá árinu 2011. Mikil samlegð hefur verið í þessum rekstri og fagleg þjónusta hefur verið stórbætt undanfarin ár samfara aukningu í fjölda hjúkrunarrýma.
Hjúkrunarrýmin sem DA sf hafði yfir að ráða og eru á Hvammi eru 34, það er 32 almenn hjúkrunarrými og 2 hvíldarrými en á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík er leyfi fyrir 23 hjúkrunarrýmum.
HSN fagnar því að þessi þjónusta verði framvegis á einni hendi og telur að þessi breyting muni styrkja þjónustuna á svæðinu til frambúðar. Það sé krefjandi verkefni að halda uppi mönnun fagfólks og mikilvægt að sameina kraftana. Stefnt er á að hjúkrunarrými á sjúkrahúsi HSN og í Hvammi muni flytjast í nýtt hjúkrunarheimili þegar það hefur risið. Öllum starfsmönnum sem hafa starfað við þessa þjónustu hjá Hvammi verður boðin áfram vinna hjá HSN.
Hafa þurft að leggja til fjármagn í þjónustu sem ríkið á að veita
Í frétt frá Hvammi hjúkrunarheimili segir að aðildarfélög DA sf hafi borið fjárhagslega ábyrgð á rekstri starfseminnar. Ítrekað hafa sveitarfélögin þurft að leggja félaginu til fjármagn vegna þjónustu sem ríkið á í raun að veita. Með þeirri breytingu sem nú er að raungerast, eru þau að fylgja í fótspor annarra sveitarfélaga sem stigið hafa þetta skref.
Næstu verkefni eigenda DA sf eru að endurskoða samþykktir félagsins og samstarf sitt m.t.t. þess hvernig búsetutækifærum, dagvistunarþjónustu, heilsueflingu, menningu og afþreyingu verði best fyrir komið fyrir eldri borgara á þjónustusvæði DA sf.
En auk áðurnefndra hjúkrunar-og dvalarrýma sem nú hefur verið úthýst til HSN er DA sf með rekstur leiguíbúða, rekstur búseturéttaríbúða, rekstur dagvistunarúrræða svo eitthvað sé nefnt. Starfsstöðvarnar eru þrjár. Húsavík, Stóra Mörk Kópaskeri og Vík Raufarhöfn. Dvalarrými eru 7 og dagvistarrými 23, 13 á Húsavík, 6 á Kópaskeri og 4 á Raufarhöfn. Leigu og búseturéttaríbúðir á starfssvæðinu eru samtals 34.