Guðný Petrína Þórðardóttir er verkefnastjóri í heilsueflingarverkefni Janusar í Grindavík. „Janusarverkefnið hófst árið 2017 og var innleitt í Grindavík í samvinnu við Grindavíkurbæ árið 2020. Það snýst um að ná inn á alla þætti heilsunnar, líkamlega, andlega og félagslega og er stílað fyrir fólk sem er 65 ára og eldri. Þó höfum við á sumum stöðum lækkað aldurinn niður í 60 ára en þar sem sveitarfélögin koma að verkefninu þá miðum við við 65 ára aldur. Þessi aldurshópur hefur kannski ekki verið mikið að huga að líkams- og heilsurækt en vissulega er inn á milli fólk sem hefur verið að æfa og heldur áfram hjá okkur. Mest eru þetta samt aðilar sem hafa aldrei stundað markvissa heilsurækt og finna fljótt styrkinn í hópeflinu, að hittast og æfa saman. Þannig ná þau að efla heilsu sína í þessum þremur þáttum sem ég minntist á. Hér inni í líkams- og heilsuræktarstöðinni erum við mest að með styrk, förum einnig í þolæfingar í Hópinu en svo gerum við ýmislegt annað, förum í pílukast, ég kenni þeim jóga svo einhver dæmi séu tekin. Við erum einnig með reglubundin fræðsluerindi varðandi næringu og aðra heilsutengda þætti.“segir Guðný frá í Víkurfréttum
Guðný segir að það sé ekki síður félagslegi þátturinn sem skiptir máli „Við höfum verið dugleg að hitta iðkendur í öðrum sveitarfélögum og framundan er Pálínuboð í Kvikunni en þá bjóðum við fólkinu í Reykjanesbæ til okkar. Í Pálínuboði þá koma allir með eitthvað til að setja á veisluborðið. Þau buðu okkur til sín í nóvember, þá fórum við með þeim í kirkjuna og fengum að kynnast starfinu þar og sungum með þeim jólalög, mjög vel lukkuð ferð og við munum gera meira af þessu í framtíðinni,“ segir Guðný
Nánar má lesa um þetta skemmtilega starf í Grindavík hér á vef Víkurfrétta