Margar hendur vinna létt verk – árangursrík samvinna innan öldrunar

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Í dag var haldin á Hotel Natura ráðstefna um öldrunarmál sem Fagráð öldrunarhjúkrunar Landspítala, Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga í Fíh og Öldrunarfræðafélags Íslands stóðu fyrir. Ráðstefnuna var einnig hægt að kaupa aðgang að í gegnum fjarfundakerfi.

Yfirskrift ráðstefnunnar vísar til mikilvægis þverfaglegrar samvinnu og þess að þróa þjónustuna að þörfum þjónustuþega og samfélags.

Á dagskránni voru um tuttugu erindi fagfólks sem starfar innan öldrunargeirans. Margt áhugavert kom fram og greinilega mikill kraftur í fólki í málaflokknum og samstaða um að vinna saman að sem bestri þjónustu fyrir aldraða.

Aldur er bara tala fylgdist með áhugaverðum erindum og fer stuttlega yfir nokkur þeirra hér að neðan

Nýjungar í þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU)

Heimaspítali Nýverið setti HSU á Selfossi á fót heimaspítala sem er nýjung á Íslandi. Heimaspítalinn er að fyrirmynd samskonar úrræðis á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Svíþjóð þar sem Guðný Stella Guðnadóttir öldrunarlæknir starfaði, en hún hefur nú hafið störf hjá HSU á Selfossi og ásamt fleirum þróað úrræðið þar. Margrét Björk Ólafsdóttir og Anna Margrét Magnúsdóttir kynntu úrræðið á ráðstefnunni.

Heimaspítalinn er til að byrja með fyrir alla hruma einstaklinga í Árborg með bráðavandamál og eru 75 ára og eldri. Það er einnig stuðningur við lífslokameðferð í heimahúsum ásamt heimahjúkrun. Heimaspítalinn er samvinnuverkefni heilsugæslunnar, bráðamóttökunnar, lyflækningadeildar og sjúkraflutninga. Heimaspítalinn nýtir velferðartækni og vinnur með fjarvöktun sem er samvinn milli HSU, Öryggismiðstöðvarinnar og Dignio. Virkilega áhugavert verður að fylgjast með þróun heimaspítalans sem byrjaði í janúar s.l.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um heimaspítalann má lesa grein Guðnýjar Stellu HÉR

HÖM Hjá HSU er einnig í þróun teymi um heildrænt öldrunarmat með meðferðaráætlun (HÖM) sem Eydís Helga iðjuþjálfi kynnti. HÖM er margþætt, kerfisbundið þverfaglegt ferli til að meta og greina hæfni og takmörkun aldraðra einstaklinga, kortleggja líkamlega og andlega færni, vitræna getu, félaglega þætti og klínísk viðfangsefni. Markmið teymisins er að auka þjónustu vð aldraða (75 ára og eldri) í nærumhverfi með snemmtækri íhlutun, minnka líkur á innlögnum og hægja á hrumleika.

Stefnt er á að efla þessa þjónustu enn frekar með áframhaldandi þróunarvinnu og föstum stöðugildum innan teymisins. Í teyminu sem er þverfaglegt eru hjúkrunarfræðingur, öldrunarlæknir, sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi og félagsráðgjafi.

Samþætting þjónustu. Heimahjúkrun til hjúkrunarheimilis – af því við pössum ekki öll í sama excel skjal

Frá Heilbrigðisstofnun Austurlands kom erindi um samþættingu þjónustu á svæði þar sem vegalengdir eru langar á milli staða og skjólstæðingar of fáir til að möguleiki væri á helgar-og kvöldvöktum heimahjúkrunar. Skjólstæðingar þar eins og annars staðar voru þó í þörf fyrir þjónustu utan dagvinnutíma sem flýtti fyrir þörf á hjúkrunarrými þar sem skortur var á þjónustu utan dagtíma.

Markmið verkefnis var að mæta þörfum skjólstæðinga heimahjúkrunar um aðgengi að þjónustu utan dagvinnutíma og þannig auka möguleika í samfélaginu á því að búa lengur í sjálfstæðri búsetu. Framkvæmdin var á þann veg að öflugt samstarf var við Hjúkrunarheimilið Fossahlíð sem var og er bakhjarl og samráðsaðili og stuðningur við þjónustuþega og starfsfólk sem sinnir þjónustunni og nú um kvöld- og helgar ef þörf er á.

Verkefnið er enn í þróun og gerjun og tónninn sem er gefinn fyrir austan er að það þurfi að nota sveigjanleika, frumleika og hugmyndaflæði því „one size does not fit all“.

Við segjum ykkur frá fleiri erindum af ráðstefnunni á www.aldurerbaratala.is síðar

Tengdar greinar