Á fyrirlestri sínum um Þroskaverkefni ellinnar og nýja menningu í öldrunarþjónustu fyrir eldri borgara í Vestmannaeyjum í gær var Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur gagnrýnin á opinbera þjónustu öldrunarmála á Íslandi. Hún sagði að stórbæta þyrfti búsetuúrræði fyrir eldri aldurshópa og fólk ætti ekki að fara inn á hjúkrunarheimili fyrr en það væri komið að endalokunum og þörf væri á líknandi meðferð. Hún sagði að hjúkrunarheimili væru óæskilegt búsetuúrræði enda heilbrigðisstofnun. Hún sagði alla vilja dvelja heima sem lengst þeir geta og samfélagið þurfi að hugsa upp leiðir til að framfylgja þeim vilja fólks.
Sigrún Huld sagði að meginvandi þess hvernig öldrunarmálum væri háttað í dag væri stjórnsýslulegur. Öldrunarþjónustan heyrði undir tvö eða mögulega fleiri ráðuneyti, og tilheyrði tveimur stjórnsýslustigum sem væri ríki og sveitarfélög. Ofuráhersla væri á stofnanavistun og í boði væru allt of fá búsetuúrræði fyrir þá sem af ýmsum ástæðum geta ekki búið heima. Hún segir heimaþjónustuna vera veikburða og lítið fjármagn lagt í uppbyggingu og þróun. Lagt væri fimm til tíu sinnum minna í heimaþjónustu á Íslandi en í samanburðarlöndum. Hún sagði hjúkrunarheimili vera dýrasta og mannfrekasta úrræði öldrunarþjónustunnar og þetta allt kalli á endurskoðun og endurskipulagningu hjá hinu opinbera.