10 hugmyndir af jólagjöfum fyrir eldri kynslóðina

eftir Ritstjórn
Mynd: shutterstock

Það getur verið töluverð áskorun að finna hentugar jólagjafir fyrir fólk sem komið er á efri ár og annað hvort á allt eða segist ekki langa í neitt. Þig langar samt að gefa gjöf enda oft sagt að sælla sé að gefa en þiggja en hvernig finnurðu gjöf sem viðkomandi gæti kunnað að meta?

Oft er lykilatriðið að finna eitthvað sem eykur virkni og/eða vellíðan, gerir lífið aðeins einfaldara, sýnir hlýhug gefandans og svo er það alltaf bónus ef gjöfin kallar fram bros á vör.

Aldur er bara tala tók saman tíu hugmyndir af jólagjöfum :

Gjafabréf á samveru

Góð samvera er oft lykillinn að vellíðan. Í nútímaþjóðfélagi gefur fólk sér alltaf minni og minni tíma til að setjast niður og njóta samverunnar með ástvinum sínum. Hvernig væri að útbúa heimatilbúið og krúttlegt gjafabréf upp á samveru með þeim sem gjöfina á að fá ? Samveran þarf ekki að kosta neitt, getur verið tímasett samvera í göngutúr, bíltúr, spilakvöld heima, horfa á bíómynd saman, koma og elda með viðkomandi. Hægt að bjóða upp á lestrarkvöld, tónlistarkvöld eða hvaðeina sem þú heldur að falli að áhugasviði viðkomandi. Mundu bara að setja dagssetninguna á gjafabréfið svo það séu meiri líkur á að samveran verði að veruleika.

Heilaleikir – krossgátubók, pússluspil, skákborð, sudokubók

Heilinn er eins og vöðvi, því meira sem þú æfir hann, því sterkari verður hann. Ein leið til að virkja heilann er að gera þrautir. Þetta geta t.d verið krossgátu- og sudokubækur, pússluspil, skákborð eða jafnvel spurningaspil. Þessir leikir hjálpa til við að styrkja minni, auka andlega vellíðan og gefa líka tækifæri á skemmtilegum samverustundum með öðrum.

Inniskór

Þegar fólk eldist er eðlilegt að stöðugleikinn minnki og fólk verði aðeins valtara á fótunum. Þess vegna gæti verið gott að hjálpa ástvinum okkar að gera ráðstafanir til að draga úr hættu falli. Ein leið til að minnka líkurnar á að byltum er að gefa góða stama inniskó með hælbandi sem passa vel.

Næturljós

Að hafa lýsingu á nóttinni getur dregið úr byltuhættu ef fólk er að vakna á nóttunni og fara t.d á klósettið. Hægt er að kaupa mismunandi gerðir af næturljósum, þar á meðal með hreyfiskynjara eða tímastilli. Alls konar skemmtileg og falleg næturljós eru líka til sem eru ætluð yngsta fólkinu en eru líka skemmtileg til gjafa fyrir eldri aldurshópa.

Rafrænt myndaalbúm

Myndaaalbúm er falleg gjöf. Það er ekkert leyndarmál að afar og ömmur elska að sjá brosandi andlit barnabarna sinna, svo hvers vegna ekki að gefa þeim sérsniðið rafrænt myndaalbúm með safni af myndum af barnabörnunum eða öðrum í fjölskyldunni ? Þú getur líka sett inn skemmtilegar gamlar myndir sem þú veist að vekja upp góðar minningar hjá viðkomandi. Albúmið virkar þannig að því er stungið í samband eða er með rafhlöðu og myndirnar rúlla með ákveðið löngu millibili. Það er því bara hægt að sitja og njóta. Gamla góða myndaalbúmið er líka fín hugmynd af gjöf.

Veðurstöð

Margir af eldri kynslóðinni velta veðrinu mikið fyrir sér svo tæki sem sýnir veðrið í dag getur verið frábær gjöf. T.d er hægt að fá þráðlausa veðurstöð sem hægt er að nota innan- sem utandyra. Tækin eru þá með skjá sem sýnir t.d klukku, hita, rakastig og dagsetningu.  Gott er að hafa skjáinn stóran svo auðvelt sé að lesa af honum.

Extra langt skóhorn

Getan til að beygja sig minnkar oft með árunum því gæti langt skóhorn sem hengt er upp á vegg verið góð hugmynd.

Nuddtæki eða hiti fyrir axlir

Hver vill ekki fá gott nudd eða hita á axlirnar ?  Alls konar týpur eru til af nuddtækjum sem er smeygt á axlirnar, bæði sem eru með hleðslurafhlöðu eða þarf að stinga í samband.  Einnig er víða hægt að fá saumaða poka fyllta með hrísgrjónum sem hægt er að skella í örbylgju til að hita upp áður en settir eru á axlirnar. 

Ryksuguvélmenni

Ryksuguvélmenni getur verið fullkomin gjöf til að sameinast um fyrir eldra fólk þar sem nóg er að hefja þrif með því að ýta á hnapp. Þegar fólk eldist getur verið erfiðara að sinna heimilisstörfum svo gjöf sem þessi gæti verið frábær til aðstoðar á heimili. Ryksuguvélmenni eru auðveld í notkun og þurfa lágmarks viðhald. Þau er hægt að fá í nokkrum verðflokkum og þau fullkomnustu tæma sig sjálf í móðurstöð og eru tengd við app svo aðstandandinn getur sjálfur hjálpað til við að setja ryksuguna af stað og stjórnað henni án þess að vera á heimilinu.

Vatnsflaska

Fæstir eldri en 65 ára drekka nægjanlega mikið vatn. Þetta getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar, s.s sem ójafnvægi á sölt í blóði, hægðatregða og nýrnavandamál. Vegna þessa gæti vatnsflaska verið tilvalin gjöf sem getur verið hvatning fyrir ástvin þinn til að drekka meira.  Það eru til alls konar fallegar vatnsflöskur og brúsar í dag, með rörum og mismunandi að lit, stærð og gerð. Þægilegt er að fylgjast með vökvainntökunni með því að drekka úr sama brúsanum yfir daginn.

Tengdar greinar