5 ástæður til að fagna aldrinum

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sýndu þakklæti fyrir að fá að eldast. Það er fullt af ástæðum fyrir því að þú ættir að trúa á að gullnu árin svokölluðu séu eða verði þau bestu.

Venjulega horfum við framhjá fullt af ástæðum þess hversu dásamlegt það er að eldast, aðallega vegna þess að fjölmiðlar kjósa oft að leggja áherslu á hrukkur, hrörnun og líkamleg veikindi fólks í öldrunarferlinu.

Á vef www.betteraging.com voru tilgreindar 5 ástæður fyrir því af hverju við ættum að vera þakklát fyrir að eldast og af hverju við ættum að horfa jákvæð fram á við og hlakka til komandi tíma.

Þú ert hamingjusamari en nokkru sinni fyrr

Þegar þú eldist öðlastu aukinn þroska sem gerir það að verkum að þú áttar þig á hvað það er sem þú hefur stjórn á og hvað ekki. Þú hættir að velta þér upp úr því sem ekki er hægt að breyta. Þar af leiðandi hefurðu meiri stjórn á hugsunum þínum þegar hlutirnir æxlast ekki eins og þú hefðir helst óskað þér.

Eldra fullorðið fólk er síður líklegt til að dvelja við hlutina og á auðveldara með að finna hinn gullna meðalveg.

Þú þarft ekki að sofa eins mikið og áður

Rannsókn sem gefin var út í tímaritinu Current Biology skoðaði svefnmynstur hjá fullorðnum á aldrinum 60 -76 ára og bar saman við þátttakendur á aldrinum 18 til 32 ára. Niðurstöðurnar sýndu fram á að eldri hópurinn þurfti einum og hálfum tíma minna af svefni á nóttu en yngra fólkið  Rannsakendur settu einnig fram spurningu um af hverju eldra fólk héldi að það þyrfti upp í níu tíma í svefn á nóttu eins og þeir þurftu þegar þeir voru yngri. Þeir vilja meina að margir eldri einstaklingar haldi að þeir þjáist af svefnleysi þegar í raun þeir séu nær heilbrigðu svefnmynstri en þeir halda.

Það er auðveldara að stjórna tilfinningunum

Á ungdómsárum okkar geta tilfinningar okkar oft náð því besta fram hjá okkur en líka valdið hvatvísum ákvörðunum. En þegar efri árin færast yfir höfum við öðlast meira jafnvægi og stjórn yfir þeim og látum þær ekki hlaupa með okkur í gönur. Þessi dempun á tilfinningalegum sveiflum kemur oft í veg fyrir streitu og kvíða og skaðleg áhrif þess á heilsu og líðan. Þetta á við að gefnum þeim forsendum að um heilbrigða eldri einstaklinga sé að ræða. 

Kynlífið er betra

Kynlíf er heilbrigð athöfn fyrir fullorðna á öllum aldri og þarf ekki að draga úr því þó fólk eldist. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kynhvöt fullorðinna getur haldist óbreytt langt fram yfir 80 ára aldurinn. Reglulegt kynlíf er nátengt góðri heilsu og hafa sumar rannsóknir sýnt fram á fylgni sé milli lélegrar heilsu og fátíðara kynlífs. Það gæti þó verið að skekkja sé í þessum rannsóknum því að þeir sem eru slæmir til heilsunnar eru oft í verri aðstöðu til að stunda kynlíf en þeir sem eru heilbrigðir.

Lífið hægir á sér

Á fyrstu áratugum lífsins gerist allt mjög hratt. Atvinna, sambönd, barneignir, amstur dagsins og þó það virðist ekki hafa mikil áhrif á okkur og sé eðlilegt ferli þá skapar það streituvaldandi umhverfi sem hefur áhrif á okkur og getu okkar til að vera hamingjusöm.  Svo þegar við eldumst og börnin flytja út verða persónuhagir okkar stöðugri og atvinnuframi skiptir ekki eins miklu máli.  Það að finna tima til að njóta hvers dags verður auðveldara.

Lauslega þýtt af www.betteraging.com

Tengdar greinar