Í nýjasta tölublaði Víkurfrétta er viðtal við Elsu Pálsdóttur sem er margfaldur Íslandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari í kraftlyftingum. Hún æfir sex daga vikunnar í Lífstíl í Keflavík. Elsa tók þátt í fyrsta mótinu í kraftlyftingum í nóvember 2019 og setti Íslandsmet á því móti. Síðan þá hefur hún tekið þátt í nokkrum mótum og hefur í dag sett yfir 40 íslandsmet í sínum greinum og í sínum aldurs-og þyngdarflokki.
Æfingar Elsu eru frá einum og hálfum klukkutíma upp í þrjá tíma á dag alla daga nema sunnudaga. Hún segir að hérlendis sé lítill hópur sem stundar kraftlyftingar á hennar aldri en erlendis sé þó nokkuð af fólki á hennar aldri að æfa. Það hafi komið henni á óvart að það væri töluverður hópur sem er eldri en hún að æfa kraftlyftingar í Evrópu.
„Ég væri ekki í þessu nema mér þætti þetta skemmtilegt“ segir Elsa í viðtalinu. „Þetta er skemmtilegt og ekki skemmir fyrir að það er skemmtilegt í því, þar sem maður stendur sig vel“.
Framundan hjá Elsu er mót innanlands 20.nóvember og síðan er stefnan sett á Evrópumót í Litháen í mars.
Viðtalið í heild má lesa í sportblaði Víkurfrétta sem finna má hér