Að hindra og draga úr hrumleika – Pistill öldrunarlæknis

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Undanfarna mánuði hef ég unnið að rannsókn sem kallast á íslensku: ,,Áhrif hrumleika á útkomu Covid-19 hjá einstaklingum sem eru 65 ára og eldri“. Ég hef hitt meira en hundrað manns á aldrinum 65-100 ára með Covid-19. Það er mjög áberandi að þeir sem njóta bestrar heilsu og hafa minnstan hrumleika á níræðis- og tíræðisaldri í þessum hópi eru þeir einstaklingar sem stöðugt halda sér á hreyfingu og oftar en ekki halda við áhugamálum og eiga í miklum samskiptum við annað fólk.

Hrumleiki (frailty á ensku) er hugtak sem er mikið notað í öldrunarlækningum. Hrumleiki er heilkenni sem felur í sér hægfara afturför í færni og heilsu og orsakast af lífeðlisfræðilegum breytingum sem verða vegna aldurs og/eða sjúkdóma. Einkenni hrumleika eru hægur gönguhraði, þróttleysi, tap á vöðvamassa, þyngartap án ásetnings og minni virkni.

Mikilvægt er að reyna að hindra hrumleika eins og hægt er og þegar hann er til staðar þarf að vinna í að draga úr alvarleika hans. Rannsóknir hafa sýnt að til að hindra hrumleika skiptir hreyfing mjög miklu máli, sérstaklega hreyfing sem eykur vöðvastyrk og jafnvægi. Stór hluti Covid-19 sjúklinganna sem voru við góða heilsu fóru í göngutúra alla daga. Einnig skiptir máli á efri árum að borða hollan mat og viðhalda félagslegum tengslum.

Þegar hrumleiki er til staðar er mikilvægt að halda áfram hreyfingu, ef mikið þróttleysi og/eða jafnvægisleysi er til staðar er gott að gera það undir leiðsögn sjúkraþjálfara. Breyta þarf matarræði ef hrumleiki er til staðar og auka hlutfall próteina og fitu á kostnað kolvetna. Ef lystarleysi er til staðar er sérstaklega mikilvægt að borða næringarríka fæðu þar sem lítið magn fæðu inniheldur margar kaloríur og borða oft. Ég mæli með „Ráðleggingum um matarræði fyrir eldra fólk við góða heilsu“ og „Ráðleggingum um matarræði fyrir hrumt eða veikt fólk“ á vef Embætti landlæknis (https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/naering/eldra-folk/).

Tengdar greinar