Unga fólkið fær gjarnan þá spurningu hvað það ætli að verða í framtíðinni ? Fyrir suma er það pressa að þurfa að ákveða fyrir lífstíð hvað eigi að læra og hvaða leið skuli feta að vinnumarkaðnum. En málið er að það má alltaf breyta um skoðun, breyta til og svo er aldrei of seint að ákveða hvað maður ætlar að verða þegar maður verður „stór“.
Við rákumst á skemmtilega sögu á theguardian.com um hana Díönu Holba sem datt í hug 67 ára að aldri að læra að verða bakari. Díana elskaði að elda en það var aldrei meira en áhugamál. Í dag er hún 73 ára og kennir fólki að baka brauð og hefur aldrei liðið betur með sjálfa sig.
Þegar hún varð 66 ára settist hún niður með blað og penna í hönd til að skrifa niður lista um hvað hún vildi gera. Hún hafði unnið skrifstofustörf í yfir 20 ár og hugðist setjast í helgan stein eftir eitt ár.
Á listanum sem hún skrifaði var eitthvað matartengt í hverri línu. Það var það sem hún hafði ástríðu fyrir. Hún hafði reyndar eldað mat fyrir fólk að taka með heim á föstudögum heima hjá sér í Aston í Hertfordshire. Röðin var oft svo löng að nágrannarnir héldu að það væri búið að ofna nýja strætóstoppistöð í hverfinu.
Hún safnaði þeim pening sem hún fékk fyrir það til að kaupa stóran ofn og brauðgerðarvél. Brauðgerðin tók síðan yfir og hún ákvað að gerast bakari. Eftir námskeið og nokkra mánaða æfingu heima fór hún að selja brauð og halda sjálf brauðnámskeið.
Díana elskar brauð, hún segir að það sé 6000 ára gömul hefð og sé oft það sem fólk alls staðar í heiminum setur fyrst á borðið. Og svo sé það lyktin. Bæði af því þegar það kemur úr ofninum en líka af deiginu sjálfu.
Svo hvernig hefur brauðið breytt Díönu ? Ég hef meira sjálfstraust segir Díana, hún hefur nýverið flutt til Cambridgeshire þar sem hún ætlar að koma brauðinu sínu út í samfélagið. Hún segist líklega vera hamingjusamari en áður og fá meira út úr lífinu.
Allt viðtalið má lesa á ensku hér