Aldur er bara tala

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Aldur er bara tala er komin í loftið (www.aldurerbaratala.is).  Aldur er bara tala er vefsíða sem er ætlað að gefa eldri aldurshópum tækifæri á aðgengi að ráðgjöf og fræðslu um mál er þá varða sama hvar þeir eru búsettir á landinu.  Það er ekkert launungamál að aðgengi þeirra sem búa á landsbyggðinni að þjónustu og ráðgjöf er oft á annan veg en þeirra sem búa á þéttbýlli stöðum.  Stundum er það mun betra en stundum verra. Hindranir við að leita sér þjónustu geta einnig verið til staðar í stærri sveitarfélögum af ýmsum ástæðum. En alltaf fjölgar í hópi þeirra sem náð hafa að tileinka sér tölvutæknina og gætu nýtt sér þann möguleika að fá þjónustu í gegnum netið. 

Aldur er bara tala er ætlað að veita ráðgjöf og fræðslu þar sem fyrirspurnir eru sendar í gegnum fyrirspurnarform á forsíðunni. Úrdráttur úr fyrirspurn og svari er síðan birt á síðunni til að það nýtist öllum og að sjálfsögðu undir nafnleynd.    Að þessari ráðgjöf koma undirrituð sem er félagsráðgjafi, Guðný Stella Guðnadóttir öldrunarlæknir og Soffía Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur. Fleira fagfólk mun bætast í hópinn síðar. 

Aldur er bara tala á einnig að hafa afþreyingargildi og hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan með uppbyggilegum, fræðandi og skemmtilegum greinum og viðtölum. Við tökum einnig vel á móti innsendum greinum og vangaveltum er snúa að því göfuga hlutverki að fá að eldast.  Aldur er bara tala er verkefni sem kemur til með að þróast með þeim sem nýta síðuna og eru því allar ábendingar vel þegnar á aldur@aldur.is

En er Aldur bara tala?

Svo sannarlega er aldur bara tala, flestum finnst þeir vera yngri en árin segja til um.  Í mínum huga skiptir aldur fólks ótrúlega litlu máli í samskiptum, þeir sem yngri eru læra og hafa hag af samskiptum við þá sem eldri eru og öfugt.  Aldurinn þarf ekki að segja til um gæði samskipta.  Sú gullna setning “þú ert eins gamall og þér finnst þú vera” er svo sönn.  Við eigum eftir að sýna ykkur á síðunni dæmi um hvað hægt sé að gera þó maður sé á áttræðis, níræðis og jafnvel tíræðisaldri.  Takmörkin liggja hjá okkur sjálfum og í því hvernig við hugsum hlutina.  Með virkni, þjálfun og jákvæðu hugarfari er hægt að komast ansi langt í að láta drauma sína rætast og yfirstíga þær hindranir sem eru í veginum eða að minnsta kosti læra að lifa með þeim. 

Hvað breytist við að eldast?

Hvert aldursskeið hefur sín einkenni og sína fegurð.  Oft er talað um æviskeiðin sem þrjú.  Síðasta æviskeiðið getur spannað áratugi og er mikilvægt að vinna að því að það verði sem farsælast.  Hin ýmsu kerfi líkamans s.s meltingarkerfi, hjarta-og æðakerfi, stoðkerfi og taugakerfi eru kannski farin að minna okkur á að það telst í árafjöldann.  EN fegurðin er fólgin í allri þeirri visku sem kemur með aldrinum, þolinmæðinni, reynslunni og þroskanum.  Það er oft búinn að skapast rýmri tími til að takast á við hugðarefnin og smáatriðin skipta ekki lengur máli. Mikilvægt er þá að minna sig á að horfa á styrkleikana sína og efla þá. Gera það sem maður getur gert og reyna að taka fókusinn af því sem maður getur ekki gert og fá aðstoð við það. 

Amma og afi

Það hentar ekki það sama fyrir alla. Mjög margir sækja í félagsskap jafnaldra og virkni þegar árin færast yfir og njóta þess. Ég átti ömmu með ákveðnar skoðanir sem fór aldrei í félag eldri borgara því henni fannst hún vera svo ung, hún var alltaf ákveðin í að fara ekki inn á elliheimili því það væri bara fyrir gamalt fólk og sagðist aldrei ætla að klæða sig eins og gömul kona. Allt þetta sagði hún á tíræðisaldri en hún varð 99 ára gömul. Hún eyddi síðustu mánuðunum í rúminu í á heimilinu sínu, gat ekki lengur komist sjálf á milli, en hún var hamingjusöm því hún gat valið sjálf að vera heima.  Afi minn varð 102 ára gamall, hann var minnugri heldur en ég hef nokkurn tímann verið og lærði bæði að elda og hella upp á kaffi eftir 95 ára aldurinn, maðurinn sem aldrei hafði áður komið nálægt eldhússtörfum. Með þeim var maður aldrei að upplifa 60 ára aldursmun í samskiptum heldur djúpa og einlæga vináttu samferðarfólks.  Ætli hugsunin um að Aldur sé bara tala hafi ekki fest mér í huga í samskiptum við þau. 

Þakkir

Kærar þakkir eru færðar þeim sem studdu mig í að láta vefsíðuna verða að veruleika.  Uppbyggingarsjóður Suðurlands veitti styrk til að koma verkefninu af stað og undirritaður var verksamningur við félagsmálaráðuneytið um Aldur er bara tala. Vefstjórum ber að þakka ómetanlega þolinmæði og aðstoð, fjölskyldu og vinum hvatninguna. 

Tengdar greinar