Aldursbundin hrörnun í augnbotnum

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Þegar ég var læknanemi vann ég við rannsókn á aldursbundinni hrörnun í augnbotnum. Ég varði mörgum klukkutímum á dag í að skoða ljósmyndir af augnbotnum og reikna fjölda gulhvítra skellna sem kallast drusen. Þessi rannsókn var unnin undir handleiðslu Haraldar Sigurðssonar augnlæknis og Guðleifar Helgadóttur hjúkrunarfræðings og var það svo skemmtileg reynsla að ég fékk áhuga á að vinna við rannsóknir meðfram klínískri vinnu sem öldrunarlæknir.

Góð sjón er afar mikilvæg fyrir aldraða einstaklinga og marga augnsjúkdóma er hægt að lækna eða halda niðri. Hægt er að fara í augasteinaskipti til að fjarlægja ský á augasteini (cataract), og til eru lyf sem halda niðri hækkuðum þrýstingi í augum (gláku).

Aldursbundin hrörnun í augnbotnum kallast á ensku age „related macular degeneration“ (AMD) og er algengasta orsök lögblindu á Íslandi.Í AMD verða skemmdir í litþekjunni í gula blettinum sem er í miðgróp sjónhimnu og er sá staður þar sem við sjáum skýrt, sjáum smáatriði og liti. Í þurra forminu verða hægfara skemmdir og gulhvítar skellur myndast sem kallst drusen. Drusen eru í raun úrgangsefni sem ekki eru fjarlægð af lithimnunni. Sjóntap er hægfara. Í vota forminu, sem er sjaldgæfara, myndast æðar undir litþekju og/eða sjónhimnu sem geta lekið og valdið bjúgmyndun og blæðingum. Sjóntap er oft brátt.

Engin meðferð er við vota forminu en inntaka ákveðinna vítamína og andoxunarefna getur varið gegn þróun þurra afbrigðisins yfir í vota augnbotnahrörnun. Við votri augnbotnahrörnun er notuð æðahemjandi meðferð, svokölluð anti-VEGF meðferð. Þá er mótefnum gegn vaxtarþáttum í æðaveggjum sprautað með nál inn í glerhlaup augans. Meðferðin fer fram á skurðstofu hjá augnlækni og er hættulítil. Þetta þarf oft að endurtaka á 4-6 vikna fresti.

Á fyrstu stigum AMD verður miðjusjónin óskýr eða bjöguð. Skellur geta komið i sjónsviðið, beinar línur eins og dyrakarmar geta virkað hlykkjóttar eða bognar og stafir í orðum geta horfið. Þessar breytingar geta átt sér stað á stuttum tíma eða þróast hratt. Afar mikilvægt er að leita sem fyrst til augnlæknis ef þessi einkenni koma til að fá viðeigandi greiningu og meðferð.

Heimilidir:

https://www.midstod.is/library/Files/Frodleikur/Baeklingar-og-kynningarefni/AMD.pdf

-https://www.sjonlag.is/frodleikur/augnsjukdomar/hrornuniaugnbotnum/

Tengdar greinar