Alþjóðlegi alzheimerdagurinn er í dag 21.september. Hægt er að segja að mikið hafi unnist á síðustu árum í rannsóknum á sjúkdómnum og vonir bundnar við að ekki verði þess mjög langt að bíða að lyf komi á markaðinn sem hægt geta verulega á ferli sjúkdómsins. Aukin fræðsla og umræða er einnig um hvaða þættir geta haft möguleg fyrirbyggjandi áhrif á að sjúkdómurinn þróist. Einnig hefur sú samfélagslega umræða sem náðst hefur um glímuna við sjúkdóminn náð eyrum yfirvalda og er nú að finna aukna meðvitund almennings um sjúkdóminn og þróaðri og endurbættari úrræði standa til boða þó áfram sé mikið starf fyrir höndum.
Alzheimersamtökin á Íslandi eru fyrirmyndarsamtök sem halda úti mjög gagnlegri heimasíðu (www.alzheimer.is) þar sem finna má aragrúa af upplýsingum og fræðslu um sjúkdóminn og birtingarmyndir hans ásamt þeim úrræðum sem í boði eru. Reglulega eru haldin fræðsluerindi sem fólki hvar sem það býr á landinu gefst kostur á að hlusta í gegnum upptökur eða beint streymi. Í gegnum verkefnið „Gott að eldast“ var ráðinn ráðgjafi til samtakanna sem þjónar allri landsbyggðinni við upplýsingagjöf og ráðgjöf. Úrræðið Seiglan hefur svo verið að þróast vel og býður upp á fjölda þjónustutilboða í hverjum mánuði sem byggist á hugrænni, líkamlegri og félagslegri þjálfun fyrir þá sem eru á fyrstu stigum vitrænnar skerðingar. Of langt mál er að telja upp þau úrræði sem eru í boði hér en benda má á að á nokkrum stöðum á landinu er að finna sérhæfðar dagdvalir fyrir einstaklinga með alzheimer, en mættu þó vera mun fleiri.
Þess ber einnig að geta að nú í haust fór af stað ný námsleið á framhaldsstigi við Háskólann á Akureyri í „Ráðgjöf við fólk með heilabilun“ og komust færri að en vildu.
Í dag stóðu Alzheimersamtökin fyrir áhugaverðri ráðstefnu undir yfirskriftinni „Taktu málin í þínar hendur“ og er hægt að sjá upptöku af ráðstefnunni hér að neðan: