Á heimasíðu alzheimersamtakanna www.alzheimer.is kemur fram að þau tímamót hafi orðið í starfsemi Alzheimersamtakanna að nú sé skrifstofan flutt úr Hátúni í Lífsgæðasetrið, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.
„Eins og kunnugt er hefst þar starfsemi sem sérstaklega verður ætluð yngra fólki og þeim sem skammt eru gengnir með sjúkdóm sinn. Þjónustueiningin hefur fengið nafn en hún verður kölluð Seiglan. Orðið hefur skírskotun í hvað þarf til að takast á við afleiðingar heilabilunar hvort sem um er að ræða sjúklinginn sjálfan, aðstandendur eða starfsfólk sem starfar hjá samtökunum. Þá spillir ekki fyrir að orðið seigla er eitt af þeim sem valið var hið fegursta í íslenskri tungu.
Það er einlæg von okkar að nafnið muni venjast vel.
Við hvetjum alla til að fylgjast með fréttamiðlum okkar en við munum reglulega birta fréttir af því hvernig undirbúningur gengur hvenær tímabært verður að hafa samband varðandi þátttöku í þjónustuframboði“ segir á heimasíðunni.
Aldur er bara tala óskar alzheimersamtökunum til hamingju með nýju aðstöðuna. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun starfs samtakanna sem eru gífurlega mikilvægur þáttur í þjónustu við einstaklinga með alzheimer og aðstandendur þeirra.