Átaksverkefni til að efla félagsstarf fullorðinna og aðgerðir til heilsueflingar eldri borgara

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Á vefsíðu stjórnarráðsins www.stjr.is er frétt sem ber að fagna en Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett af stað átaksverkefni til að efla félagsstarf fullorðinna í samvinnu við sveitarfélögin, ásamt aðgerðum til heilsueflingar eldri borgara í samvinnu við Landssamband eldri borgara og ÍSÍ. Aðgerðirnar eru mótaðar af starfshópi um lífskjör og aðbúnað aldraðra, og eru hluti af viðspyrnuáætlun ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Alls verða 125 milljónir króna settar í verkefnið, sem er þrískipt.

Félagsstarf fullorðinna í samstarfi við sveitarfélög:

80 milljónir króna verða settar í félagsstarf fullorðinna í samvinnu við sveitarfélögin þar sem sveitarfélögunum gefst kostur á að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna sem miða að því að virkja hópinn með fjölbreyttum úrræðum. Sveitarfélög geta sótt um 1.700 króna styrk fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu en gert er ráð fyrir að lágmarksframlag verði ekki undir 100.000 krónum.

Heilsuefling – Landssamband eldri borgara og ÍSÍ:

30 milljónir króna verða settar í sérstaka heilsueflingu eldri borgara í samstarfi við ÍSÍ. Landssamband eldri borgara fær 15 milljónir króna til að vinna að heilsueflingu aldraðra með því að ráða starfsmann í verkefnið sem vinnur, í samstarfi við ÍSÍ, í gegnum tengslanet félaga eldri borgara og sveitarfélaga um allt land. ÍSÍ mun ráða starfsmann til að aðstoða áhugasöm sveitarfélög um land allt við að innleiða með markvissum hætti heilsueflingu til framtíðar sem felur í sér skipulagða þjálfun og aukið heilsulæsi aldraðra, með tilliti til hreyfingar, næringar og annarra þátta sem skipta sköpum fyrir heilsu þeirra og líðan.

Fræðsluátak:

Þá verða 15 milljónir króna settar í gerð fræðsluefnis og auglýsinga sem er sérstaklega beint að öldruðum til heilsueflingar. Efnið verður fjölbreytt, fræðandi og mun hvetja eldri borgara til hreyfingar.

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/03/04/125-milljonir-krona-til-orvunar-a-felagsstarfi-og-heilsueflingar-fullordinna-/

Tengdar greinar