Áttu erfitt með að muna nöfn?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sumir eru afleitir í að muna nöfn og svo virðist sem það versni með árunum. Það getur skipt sköpum í  að tengjast fólki að muna nöfnin á þeim sem við er rætt. Ein af aðferðunum við að láta fólki líða vel í návist sinni og sýna því virðingu er að muna nafnið á þeim og segja það upphátt.  Það er frekar leiðinlegt að ætla að ná sambandi við einhvern eða kalla á einhvern og segja “Hei, þú”, “Halló þú þarna” eða annað slíkt.

Það að muna nöfn á fólki er mikilvægt á marga vegu. Það lætur fólki líða vel nálægt okkur að heyra nafnið sitt sagt og fólk hlustar betur á þig. Svo virðist sem margir farsælir leiðtogar hafi sérhæft sig í þessari tækni, þeir vita að það skiptir máli. Okkur líður betur þegar við vitum að aðrir muna eftir okkur og því er mikilvægt að virkja hugmyndaflugið og sjónminnið til að æfa sig betur.

Hér eru nokkur góð ráð til að muna nöfn betur

Endurtaktu nafnið upphátt í samtalinu

Þegar þú heyrir nafn einhvers, reyndu að festa nafnið á minnið með því að setja það inn í það sem þú ert að tala um. Til dæmis ef viðmælandinn heitir Karólína, segðu þá t.d  “Karólína, það er gaman að hitta þig”, “Hvað varð til þess að þú komst hingað í dag Karólína” ? osfrv

Notaðu nafnið eins oft og er við hæfi í samtalinu.  Þegar þú svo kveður segðu þá nafnið aftur þegar þú horfir á manneskjuna og reyndu að festa andlit og nafn saman í minninu.

Stafaðu nafnið í huganum

Oft er gott að stafa nafnið í huganum til að það festist betur. Þetta er sérstaklega gott ef þú hefur sjónminni.  Svo má alltaf fljótlega eftir að þú hittir einhvern sem þú vilt muna hvað heitir skrifa það niður t.d í símann þinn með nokkrum hlutum sem minna þig á viðkomandi. Þú gætir líka útbúið spjaldskrá með nöfnum á einstaklingum sem þú vilt ekki gleyma.

Tengdu nafnið við eitthvað kunnuglegt

Sumum reynist gott að fara í eins konar minnisleik þegar muna þarf nýtt nafn og tengja það við eitthvað til dæmis starf viðkomandi, persónueinkenni eða bæjarfélag. Þú hittir Jónu: Jóna bókari, svo hittirðu Boggu frá Borgarnesi, settu þá saman í huganum nafn og tengingu.

Tengdu viðkomandi nafn við einhvern sem er frægur og hægt er að finna tengingu við.  Þú hittir til dæmis hana Andreu og vilt muna nafnið á henni en Andreu hittirðu á kvöldskemmtun þar sem hún söng manna hæst í samsöngnum.  Tengdu hana þá við Andrea (Bocelli), plataðu heilann á að hún hafi sungið eins og uppáhaldssöngvarinn þinn. Svo hittirðu hann Patrek og uppáhaldsmyndin þín er Dirty Dancing, reyndu þá að tengja hann Patrek við Patrick Swayze aðalleikarann í myndinni. Svo ætlarðu að muna nafnið hennar Kötu, reyndu þá að muna að hún heitir það sama og forsætisráðherrann. Svona má halda áfram að leika sér með tengingar nafna við eitthvað kunnuglegt.

Tengdu nafnið við einhvern sem þú þekkir

Það getur líka verið gott að tengja nafn þeirrar manneskju sem þú hittir við nafn á einhverjum sem þú þekkir. Til dæmis Axel, heitir eins og Axel bróðir. Björn, heitir eins og pabbi tengdasonarins, Ásta heitir eins og besta vinkonan osfrv. Þú getur líka tengt nýtt nafn við söngtexta, til að muna nafnið á henni Stínu, gætirðu sönglað í huganum „Stína var lítil stúlka í sveit, stækkaði óðum blómleg og heit“. Svo þarftu að muna nafnið á henni Júlíu og þá geturðu sönglað lagið Rómeó og Júlía í huganum.

Ákveddu að það skiptir máli að muna nafnið

Margir hafa bent á að ein af aðalástæðunum þess að fólk gleymir nöfnum er að það er í rauninni ekki að einbeita þér að því að muna nafnið. Það er svo margt annað sem grípur athygli okkar. Gott ráð er því að láta sér ekki standa á sama.  Sýndu viðkomandi umhyggju, hlustun og athygli og þá gengur betur að muna nafnið.

Tengdar greinar