Aukin bjartsýni um betri meðferð við Alzheimer

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Í nýlegum pistli Jóns Snædals öldrunarlæknis á heimasíðu Alzheimersamtakanna segir hann frá ráðstefnu sem haldin var í Boston fyrr í mánuðinum þar sem fjallað var um nýjungar í þróun lyfja og rannsóknir hvað varðar Alzheimer sjúkdóminn.

Aukin bjartsýni um að það takist að finna betri meðferð við Alzheimer

Ráðstefna sem kallast CTAD (Clinical Trials in Alzheimer´s Disease) var haldin í Boston 9.-12. nóvember. Hún er haldin er árlega og fjallar um það nýjasta í þróun lyfja og rannsóknaraðferða í Alzheimer sjúkdómi. Í fyrirlestrunum kom fram að það ríkir greinilega aukin bjartsýni hjá vísindamönnum um að það takist að finna betri meðferð við Alzheimer sjúkdómi en nú er í boði.

Umræða um nýtt lyf sem kom á markaðinn í byrjun sumars

Á ráðstefnunni var sem vænta mátti mikið rætt um lyfið sem kom á markað í Bandaríkjunum í byrjun sumars en dræm sala þess hefur þó væntanlega valdið vonbrigðum hjá framleiðendum þess. Skráning lyfsins fékk mikla gagnrýni og lyfjanefndir margra heilbrigðisstofnana þarlendis hafa ekki mælt með notkun þess. Þar með fæst ekki niðurgreiðsla frá tryggingafélögum. Lyfið er mjög dýrt og það er auðvitað hamlandi. Lyfið er enn ekki á skrá í Evrópu. Á hinn bóginn er það sennilega rétt mat hjá Bandarísku lyfjastofnuninni FDA að skráningin hafi orðið hvatning til dáða.

Bjartsýni með fleiri lyf og verið að þróa lyf úr efnum sem m.a er að finna í marjuana og hassi

Þess er vænst að tvö lyf til viðbótar fái skráningu á sömu forsendum og hið fyrsta og líkur aukast því á að eitthvert þeirra hafi raunveruleg áhrif til að bæta vitræna getu og líðan fólks. Þau virka öll á amyloid útfellingar í heila en á nokkuð misjafnan hátt. Margar aðrar tegundir lyfja eru í þróun þó ekki sé enn komið á það stig að sótt hafi verið um skráningu þeirra.

Einnig var fjallað um meðferðir sem eiga að bæta líðan Alzheimer sjúklinga með mikla heilabilun. Það er m.a. athyglisvert að fylgjast með þróun lyfja sem hafa áhrif á svokölluð cannaboid viðtæki í heila en slík efni er m.a. að finna í marjuana og hassi. Kynntar voru rannsóknir á þessum lyfjum sem lofa góðu, ekki síst fyrir það hversu vel þau þolast og aukaverkanir eru litlar. Rétt er að taka fram að ráðstefnan fjallaði nánast eingöngu um lyf en ýmsar aðrar aðferðir eru til sem hjálpa svo sem tónlist, endurminningarmeðferð og ekki síst fagleg umönnun.

Munu blóðrannsóknir geta greint Alzheimersjúkdóminn í framtíðinni ?

Rannsóknaraðferðir sem greina Alzheimer sjúkdóm mjög snemma eru í þróun og er t.d. líklegt að blóðrannsóknir geti í nánustu framtíð gefið svipaða niðurstöðu og jáeindaskönnun og mælingar úr mænuvökva en þær eru óneitanlega mun einfaldari í framkvæmd. Þetta hefur verið það lengi í umræðunni að það hlýtur að fara að styttast í að slíkar aðferðir verði aðgengilegar við venjulega uppvinnslu á vitrænni skerðingu.

Minnismóttakan á Landakoti fylgist grannt með og mun taka slíka rannsókn upp þegar hún verður í boði. Það er svo annað mál hvort verði farið út í skimanir til að finna þá sem eru komnir með merki sjúkdómsins í heila en hafa engin einkenni en það verður a.m.k. ekki fyrr en áhrifarík meðferð verður í boði.

Greinin birtist á vefsíðu Alzheimersamtakanna www.alzheimer.is þar sem finna má margvíslegan fróðleik og ráðgjöf um heilabilun og alzheimer.

Tengdar greinar