Bíllinn og akstur á efri árum

eftir Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Mynd: Canva

Árið 1904 keypti Ditlev Thomas kaupmaður og konsúll fyrsta fólksbílinn og flutti hann til landsins þann 20. júní sama ár. Þrátt fyrir að vera vélarvana, aðeins 6-7 hestöfl og bilanagjarn þá var hann nýttur m.a. til ýmissa skemmtiferða (Kristinn Snæland, 1983). Á þeim tíma voru ekki vegir um allt land líkt og í dag og hvað þá malbikaðir. Með komu bílanna til landsins átti sér þó stað ákveðin þróun í vegagerð og brúaruppbyggingu svo fólk kæmist ferða sinna um landið. Í störfum mínum með eldri borgurum hef ég verið svo heppin að kynnast vegagerðarmönnum frá þeim tímum og fengið að heyra ýmsar ógleymanlegar sögur af þeirra störfum og vinnuaðstæðum.

Í dag þykir mörgum sjálfsagt að hafa bílpróf og að setjast upp í bíl til komast ferða sinna hérlendis og erlendis. Flestir fá ökuskírteinið við 17 ára aldur en nú þarf að sækja um og fá fullnaðarökuskírteini þremur árum síðar að loknu akstursmati hjá ökukennara. Þegar því er lokið þá hefur fólk réttindi til að keyra án athugasemda til sjötugs svo lengi sem fólk virðir umferðarlög og -reglur og hefur heilsu til þess. Við sjötugsaldur þurfa allir að endurnýja ökuréttindin í samráði við sinn læknir með læknisvottorði og nýlegri passamynd. Réttindin eru tímabundin í hvert sinn sem þau eru endurnýjuð, alveg fram að aksturslokum, hvenær sem þau verða.

Stundum er þörf á mati í akstursfærni sem getur verið framkvæmt af ökukennara og iðjuþjálfa sem er heilbrigðisstarfsmaður og sérfræðingur í iðju. Það kemur sér vel þegar upp koma vafamál tengt heilsufari, hreyfigetu eða vitrænni getu við akstur. Mikilvægt er að taka fram að hækkandi aldur er ekki ástæða þess að aksturshæfni minnkar enda er aldur bara tala. Það gerist vegna ákveðinna skerðinga sem eru líklegri til að eiga sér stað á efri árum en geta einnig gerst á yngri árum. Þar á meðal má nefna alvarleg sjónskerðing og heyrnarskerðing, skert hreyfigeta og viðbragðssnerpa, vitræn skerðing, minniskerðing, lyfjanotkun og fleira sem getur haft neikvæð áhrif á akstursfærni. Þau sem hafa t.d. lent í því að þurfa gleraugu á fullorðins árum hafa oft verið komin með töluverðar sjónbreytingar áður en þau leita til augnlæknis. Ástæðan er sú að líkaminn okkar hefur einstaka aðlögunarhæfni sem gerir það að verkum að við oft tökum ekki eftir því þegar færni okkar breytist hægt og rólega.

Ég hef því lengi heillast af málshættinum „Betur sjá augu en auga“ þar sem ég tel mikilvægt að við hjálpumst að við að styðja hvort annað í að sinna þeirri iðju sem við tökum okkur fyrir hendur og er okkur mikilvæg. Það gerum við sem dæmi með því að bregðast við og hafa orð á því með vinalegum hætti þegar við sjáum að færni einstaklings hrakar eða þörf er á viðeigandi færni- og heilsumati, þjálfun eða hjálpartækjum svo viðkomandi geti haldið áfram að sinna iðjunni með öruggum hætti.

Það eru til ýmis ráð til að viðhalda akstursfærni og verður það umræðuefni í næstu grein iðjuþjálfans.
Þegar það kemur svo að þeim tímamótum að ákvörðun er tekin um að leggja frá sér bíllyklana og hætta akstri er mikilvægt að hún sé tekin áður en alvarlegt slys á sér stað, óháð því hversu erfið sú ákvörðun er fyrir okkur. Við þurfum að hlusta á okkar innri rödd, sérstaklega þegar við finnum að við erum orðin óörugg í akstri, við upplifum alla aðra í umferðinni lélega í akstri eða erum hætt að ráða við að aka bíl með ákveðinni leikni.

Það er dýrmætt að geta lagt frá sér bíllyklana endanlega með farsæla aksturssögu að baki og án alvarlegra slysa. Þökk sé góðum samgönguleiðum, oft stuttum en greiðfærum vegalengdum fyrir gangandi vegfarendur og fjölbreyttri þjónustu víða um land má nýta sér aðrar leiðir til að komast ferða sinna eða til að nálgast nauðsynlegar vörur, þjónustu og fólkið sitt.


Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um aksturfærnimat iðjuþjálfa inn á heimasíðu Heimastyrks www.heimastyrkur.is sem og aðrar upplýsingar í eftirfarandi heimildum;

Kristinn Snæland (1983). Bílar á Íslandi í myndum og máli 1904-1922. Bókaútgáfan Örn og Örlygur. Heilsuvera.is (e.d).

Akstur á efri árum.
https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/fyrirbyggjandi/slysavarnir-eldra-folks/akstur-a-efriarum/
Island.is (e.d.).

Endurnýjun ökuskírteina fyrir 70 ára og eldri. https://island.is/endurnyjunoekuskirteina-fyrir-70-ara-og-eldri
Samgöngustofa (e.d.).

Akstur á efri árum. Leiðbeiningar og góð ráð fyrir eldri ökumenn.
https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/leb_akstur_01_vef.pdf

Tengdar greinar