“Ég er farin að gleyma svo miklu, á ég að láta rannsaka mig”?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Jón Snædal prófessor í öldrunarlækningum og fyrrverandi yfirlæknir á Landakoti var með rafrænan fræðslufyrirlestur á vegum Alzheimersamtakanna (www.alzheimer.is) í vikunni. Margir sem eiga aðstandanda eða þekkja einhvern sem greinst hefur með heilabilun eða Alzheimer hafa áhyggjur af því hvort þeir ættu sjálfir að láta skoða sig með tilliti til þess hvort þeir gætu verið með heilabilun.

Horft er á nokkur svið vitrænnar getu þegar meta á hvort heilabilun sé til staðar t.d minni, skipulag athafnir, verklagni, mál, ratvísi og persónuleika. Þegar eitthvað fer að bila af þessu þarf maður aðeins að hugsa sinn gang og athuga hvort ástæða sé til að skoða það nánar.  Heilabilun er það stig vitrænnar getu þar sem skerðing er farin að koma niður á vinnu og félagslegum athöfnum.  Notaðir eru ákveðnir kvarðar til að meta hvort um heilabilun sé að ræða og þá á hvaða stigi.

Heilbrigður einstaklingur má alveg vera gleyminn segir Jón og það er fullkomlega eðlilegt. Ef þú ert kominn yfir sjötugt og ert heilbrigður er áhættan á að vera kominn með breytingar sem leiða til heilabilunar 5 árum síðar u.þ.b  5 prósent.  Áhættan er mun minni hjá þeim sem yngri eru.  Fólk á fertugsaldri sem er gleymið dettur ekki í hug að vera komið með Alzheimer, en ef fólk er um sjötugt þá hefur fólk frekar áhyggjur af því að eitthvað sé að gerast þegar það gleymir þó það sé kannski jafngleymið og það hefur alltaf verið. 

Eru 6.845 manns á Íslandi með heilabilun ?

Niðurstöður nýrrar umfangsmikillrar rannsóknar sem fram fór í Þrændalögum í Noregi þaðan sem íslenskir landnámsmenn komu að miklu leyti frá eru athyglisverðar.  Tæplega 10.000 manns sjötíu ára og eldri voru í úrtaki og var þátttakan góð en bæði voru rannsakaðir einstaklingar í heimahúsum og á stofnunum.  Hlutfall þeirra sem reyndust vera með heilabilun var um 5 % hjá sjötugum og  40 % hjá níræðum og yfir.  Ef teknir voru allir sjötíu ára og eldri var tíðnin 14,6 % sem er heldur hærra hlutfall en í mörgum eldri rannsóknum. Í dag er talið að um 100.000 manns séu með heilabilun í Noregi og þeim fjölgi hratt fram til næstu aldarmóta eða þrefalt til fjórfalt og mjög hratt á næstu áratugum.  Út frá þessu er talið að tíðni heilabilunar í Noregi sé um 1,88 % af þjóðinni. 

Ef þessi rannsókn er yfirfærð yfir á Ísland sem auðvitað eru ekki algildar niðurstöður væru 5.180 einstaklingar í aldurshópnum 70 ára og eldri með heilabilun.  Ef þetta er yfirfært á þjóðina og alla aldurshópa væru 6.845 manns með heilabilun á Íslandi. Jón leggur þó áherslu á að yfirfærslu rannsóknarinnar yfir á Ísland þurfi að taka með miklum fyrirvara en gefi þó tilefni til að skoða betur.

Hverja á að rannsaka ?

Það er ekki hægt að hvetja alla sem eru gleymnir til að fara í rannsókn. Það er heldur ekki gott að bíða þar til þetta er orðið að vandamáli.  Einhvers staðar þarna á milli þarf að athuga málið.  Í dag er ekki mælt með því að rannsaka þá sem eru með það sem kallað er upplifað minnistap.   Í mörgum tilfellum eru þeir sem eru með upplifað minnistap heilbrigðir en með einkenni s.s sem gleymsku sem eru af öðrum orsökum s.s vegna útbruna, athyglisbrests, síþreytu, eru með langvinna verki, áfengissýki o.f.l. Einkenni út frá þessum þáttum geta falist í  gleymsku.

Mælt er með því að þeir sem eru með væga vitræna skerðingu séu rannsakaðir, en þá er spurningin hvernig maður viti sjálfur að maður sé kominn á þetta stig.  Hversdagsgleymska s.s að gleyma nöfnum, að labba á milli herbergja og muna ekki hvað maður ætlaði að ná í, setja veskið á óvenjulegan stað og muna ekki hvar maður setti það eru eðllilegir hlutir. En það þarf að staldra við ef þetta er að aukast greinilega.  Í þessu eru breytingar lykilorðið. Miðað er við breytingar frá því sem áður var og  því er mjög mikilvægt að fá upplifun fjölskyldu og vinnufélaga til að meta hvort breytingar á minni hafi átt sér stað frá því sem áður var.

Hvert á fólk að leita ef það upplifir að það sé með einkenni heilabilunar ?

Jón Snædal ráðleggur fólki að leita til heimilislæknis á heilsugæsluna til að ráðfæra sig.  Þá  þarf að fara yfir það hvaða breytingar hafa orðið, læknirinn fer yfir breytingar og fær sjónarmið aðstandenda.  Verkefni eru lögð fyrir eins og próf sem heitir MMSE og klukkupróf og þó að niðurstaða sé eðlileg þarf það þó ekki að koma í veg fyrir frekari skoðun.  Læknir metur síðan hvort viðkomandi sé vísað á minnismóttöku til nánari skoðunar en þá gæti verið um að ræða væga vitræna skerðingu og óvanaleg tilvik heilabilunar.

Hvað er gert á minnismóttökunni á Landakoti ?

Þar eru lögð fyrir ítarleg próf og bæði rætt við sjúkling og viðkomandi aðstandanda.  Ef framkvæmdar eru frekari rannsóknir eru blóðrannsóknir oft gerðar á staðnum. Blóðrannsóknir eru mikilvægar því þær geta greint aðra sjúkdóma sem valdið geta vægri skerðingu s.s van- eða ofstarfsemi á skjaldkirtili, ofstarfsemi á kalkkirtli, vöntun á B-12 vítamíni eða vöntun á fólínsýru. Einnig eru stundum framkvæmdar aðrar rannsóknir s.s segulómun á heila, taugasálfræðilegt mat, mænuvökvi skoðaður, framkvæmd er skoðun í jáeindaskanna eða tekið heilarit.

Er fólk eitthvað bættara með að vita hvað sé að sér og er eitthvað hægt að gera sé það með alzheimer/heilabilun ?

Í flestum tilfellum upplifir fólk að vissa sé betri en óvissa ekki hvað síst aðstandendur.  Þá er einhver flötur til að standa á , það er ekki rétt að ekkert sé hægt að gera.  Það eru til lyf bæði gegn Alzheimer og Lewy sjúkdómnum sem geta haft áhrif til að seinka framvindu sjúkdómsins að meðaltali um tæplega eitt ár.  Sumar afleiðingar heilabilunar er einnig hægt að meðhöndla með ágætum árangri.  Stuðningur sem hægt er að veita til að takast sem best á við ástandið getur skipt miklu máli s.s sá stuðningur sem alzheimersamtökin veita og eftirfylgni frá minnismóttökunni.  Réttindi geta líka fylgt ákveðinni sjúkdómsgreiningu s.s hvað varðar kerfi eins og Tryggingastofnun og lífeyriskerfið, einkum ef fólk er yngra en 67 ára gamalt. Svo það er margt sem mælir með því að greining fari fram.

Fyrirlestur Jóns Snædals sem grein þessi er unnin upp úr má finna í heild sinni á facebooksíðu Alzheimersamtakanna https://www.facebook.com/alzheimersamtokin

Tengdar greinar