Í Svíþjóð þar sem ég bý og starfa hefur SARS-CoV-2 kórónuveiran sem veldur COVID-19 verið til staðar í meira en 8 mánuði. Ég hef byggt upp og starfa í sérhæfðu heimsóknarteymi fyrir aldraða í Gautaborg og síðustu vikurnar hef ég unnið við rannsókn sem felur m.a. í sér að ég tek viðtöl við alla sem eru 65 ára og eldri og leggjast inn á Sahlgrenska spítalann í Gautaborg vegna COVID-19. Eitt slær mig endurtekið, en það er hversu miklum einmanaleika veirusjúkdómurinn veldur. Þeir sem eru lagðir inn vegna COVID-19 eru oft einir í herbergi og hitta bara fólk í geimbúningum, oft í margar vikur. Heimsóknir ættingja eru leyfðar þegar fólk liggur banaleguna en ættingjarnir eru einnig í fullum varnarbúnaði, sem lítur oft út eins og geimbúningur. Á mörgum hjúkrunarheimilum hefur heimsóknarbann verið í gildi mánuðum saman og það er bæði heimilisfólki og ættingjum afar þungbært. Á sama tíma er erfitt að líta fram hjá hárri dánartíðni hjá veikburða fólki á hjúkrunarheimilum sem fær COVID-19, a.m.k þriðjungur þeirra fellur frá.
Fólk sem er komið yfir sjötugt er í áhættuhópi að veikjast alvarlega af COVID-19 og sænska Landlæknisembættið (Folkhälsomyndigheten) hefur gefið út sérstök ummæli til þessa hóps um að vera meira heima og minnka samskipti við annað fólk til að forðast smit1. Svíar eru almennt hlýðið fólk og eldra fólk hér hefur fylgt þessu. Í heimsóknum mínum sé ég að margir eru einangraðir og hafa haft lítil samskipti við ættingja sína nema í gegnum síma. Mörgum líður illa vegna þessara litlu samskipta.
Einn sumardag í júní sinnti ég heima við 99 ára konu með lungnabólgu, blessunarlega ekki með COVID-19. Hún jafnaði sig og stuttu síðar kom að því að halda upp á 100 ára afmælið. Fjölskylda þessarar 100 ára konu valdi að halda upp á afmælið úti, láta gestina bera grímur og að sjálfsögðu mátti enginn koma sem var með minnstu öndunarfæraeinkenni.
Líkamleg fjarlægð þarf ekki að þýða félagslega fjarlægð
Ég er ekki smitsjúkdómasérfræðingur og ég hef engar auðveldar lausnir á ofannefndum vandamálum. Ég mæli með að fylgja ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda þar sem minni dreifing veirunnar í samfélaginu leiðir til minni smitdreifingar meðal eldra fólks. Við getum hins vegar öll verið dugleg að hlúa að öldruðum ættingum á þessum erfiðu tímum. T.d. er hægt að versla fyrir þau, hringja oft í þau og hittast úti með 2 metra á milli fólks og grímur. Flestar fjölskyldur eiga gamlar spjaldtölvur til að láta ömmu og afa hafa og þá er hægt að hringja í þau með myndavélum. Flest bendir til að bóluefni komi á fyrri hluta næsta árs svo það gildir að halda út aðeins lengur. Mikilvægt er að missa ekki móðinn og standa saman og muna að líkamleg fjarlægð þarf ekki að þýða félagslega fjarlægð.
Guðný Stella Guðnadóttir