Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra veitti á dögunum Samtökunum 78 styrk að upphæð 10 milljónir í þeim tilgangi að efla stuðning samtakanna við hinsegin eldra fólk og hinsegin fólk sem leitar eftir alþjóðlegri vernd.
Eldra hinsegin fólk er breiðari og fjölbreyttari hópur en nokkru sinni fyrr segir á vefsíðu stjórnarráðsins og hefur þörf fyrir þjónustu, ráðgjöf og fræðslu aukist samhliða því.
Í fréttinni segir að Samtökin 78 hafi leitað leiða til að þjónusta betur hinsegin eldra fólk með það að markmiði að sporna betur við félagslegri einangrun hópsins. Styrkurinn mun gera samtökunum kleift að bjóða upp á heimsóknarvini fyrir eldra hinsegin fólk og verður verkefnið mótað að fyrirmynd heimsóknarvina Rauða Krossins.
Styrkurinn mun einnig nýtast til framleiðslu á sértæku fræðsluefni með það að markmiði að tryggja viðeigandi fræðslu þar með talið til einstaklinga á dvalar og hjúkrunarheimilum. Samhliða verður framleitt fræðsluefni fyrir starfsfólk sem vinnur með hinsegin eldra fólki.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna 78 segir að styrkurinn muni gera samtökunum 78 kleift að vinna af krafti gegn einangrun eldra hinsegin fólks og koma í veg fyrir að elsta kynlóðirn hrökklist aftur í felur á efri árum. Þau eru spennt að takast á við þetta stóra verkefni.
Fréttina í heild má lesa hér