Elsti þingmaðurinn og eini eldri borgarinn sem hlaut kosningu inn á þing í nýliðnum alþingiskosningum er Tómas A. Tómasson 72 ára gamall sem kemur inn fyrir Flokk fólksins en hann var oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í viðtali á Rúv sagði Tommi á Búllunni eins og hann er oft kallaður að það hafi verið nú eða aldrei en hann hafi gengið með drauminn um að fara á alþingi í maganum í áratugi.
Tommi er töffari mikill, er í hörkuformi og hefur verið viðloðandi hamborgara- og veitingabransann til áratuga. Hann lyftir lóðum eins og sjá má. Hann bætti síðan við húðflúrin sín á árinu þegar hann lét húðflúra merki Flokks fólksins á sig.
Tommi hefur enga reynslu úr pólítík en því meiri reynslu úr skóla lífsins og atvinnulífinu. Eitt af hans hugðarefnum eru bætt kjör eldri borgara. Hann hefur sagt að hann muni berjast og slást með kjafti og klóm fyrir hag eldri borgara– bæði hvað varðar frítekjumarkið, persónuafsláttinn, lífeyrisgreiðslur og aðbúnað á öllum þeim heimilum og stofnunum sem á þarf að halda þegar fólk eldist og burðir minnka. Svo hefur Tommi þá skoðun að þeir sem geta unnið eigi að fá að vinna eins mikið og þeir treysta sér til án þess að það komi niður á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun.
Hann hefur þó boðað breidd í þeim málefnum sem hann mun beita sér fyrir og ætlar líka að vera með puttana á púlsinum hjá yngri aldurshópum og námsmönnum enda yngsta barnið hans aðeins 13 ára.
Tommi er dæmi þess að Aldur er bara tala og að það er alltaf hægt að láta draumana sína rætast. Það verður gaman að fylgjast með honum á Alþingi.
Við mælum með því að horfa á myndbandið hér að neðan til enda en það er úr 70 ára afmæli töffarans Tomma.