Er aldur bara tala ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Ég veit ekki hvort ég sé komin með endanlegt svar við þessari spurningu, þrátt fyrir að hugsa um hvert svarið sé á hverjum degi. Í samskiptum mínum í gegnum tiðina við fólk á öllum aldri finnst mér aldurinn aldrei hafa skipt höfuðmáli.

Ég hef þó mögulega samsamað mig hvað best með þeim sem eru tugi og tugum árum eldri en ég er sjálf. En verkefnin sem fólk glímir við í gegnum lífið eru ekki alltaf bundin aldri. Fólk fer í ástarsorg um tvítugt, fólk fer í ástarsorg um sjötugt. Fólk veikist á barnsaldri, fólk veikist á gamals aldri. Fólk upplifir sorg um þrítugt og fólk upplifir sorg um áttrætt. Fólk á oft sömu áhugamál burtséð frá aldri. Við sjáum börn í golfi, við sjáum miðaldra og eldra fólk í golfi. Við erum nýbúin að taka viðtal við áttræðan mann sem var að fá sér rafmagnshjól og hjólar út um allar trissur. Margir mun yngri hjóla líka út um allt á alls konar hjólum.

Líklegast er skilgreiningin á aldri fólgin í því hvernig hver og einn upplifir sjálfan sig. Fæstum finnst þeir vera gamlir og líffræðilegur aldur, þ.e hvernig líkamleg og andleg heilsa er, er ekki endilega sá sami og talan sem árin segja til um. Svo er þá ekki aldur bara sú tala sem við sjálf upplifum okkur á ?

Að leita lausna, sama hvað !

Ég held samt að niðurstaða mín gæti verið sú að eftir því sem við eldumst meira sé ríkari ástæða til að hugsa betur um sig. Líkaminn eldist og þreytist, við getum ekki leyft okkur að leggja það sama á hann og þegar hann var yngri. Enginn er eilífur en við getum sannarlega bætt góðum árum eða mánuðum við lífið með því að hugsa vel um okkur. Við ættum mögulega að hugsa betur um svefninn okkar, sitja minna og hreyfa okkur meira. Hugsa meira um hvað við látum ofan í okkur. Við ættum mögulega að hætta að hafa áhyggjur og minnka streituna. Hugsa jákvætt og viðhalda félagslegum tengslum. Semsagt gera okkar besta í að viðhalda heilbrigði.

Eitt af markmiðum með vefsíðunni “Aldur er bara tala” er einmitt að miðla leiðum til að stuðla að heilbrigðri öldrun. Annað markmið er að veita ráðgjöf um lausnir og leiðir til að létta undir þegar færnin minnkar m.a vegna heilsubrests.  Finna lausnir og takast á við þau verkefni sem lífið færir okkur á lausnamiðaðan hátt.  Það er svo margt hægt að gera til að létta undir og láta sér líða betur.  Það á ekki bara við um ákveðinn aldur, á öllum aldursskeiðum ættum við að hugsa í lausnum.  Finna leiðir til að komast í gegnum oft á tíðum flókin verkefni.  Stundum getum við tekist á við verkefnin sjálf, stundum þurfum við aðstoð.

Eru kostir við að sjá aldurstöluna hækka ?

Það eru svo ótalmargir kostir við að þroskast og eldast. Einn af kostunum er að öðlast meiri visku, vita meira og hafa lært af reynslunni og vonandi þroskast við það. Það er líka einhver yfirvegun sem kemur yfir fólk með hærri aldri, smáatriðin skipta ekki lengur eins miklu máli. Það kallast víst að skilja hismið frá kjarnanum. Það að “lifa í núinu” fær nýja og raunverulegri merkingu. Þú kannt betur að meta það að fá að njóta lífsins, hefur líklegast misst einhvern nákominn þér, foreldra, vini eða kunningja og gerir þér raunverulega grein fyrir því að “hér og nú” er ekki sjálfgefið. 

Að minnsta kosti er staðan sú að sumu getur maður ekki breytt og þá er alveg eins gott að sætta sig við það og gera það besta úr því. Eitt af því er sú staðreynd að allir eldast, líka ég og þú.

Tengdar greinar